Barnamenningarhátíð | Listrænt ferðalag
Komið og sjáið sýningu verða til! Leggið ykkar af mörkum!
Listrænt ferðalag sem skoðar tilfinningar og mikilvægi fjölbreytileika
Á sýningunni verða sýndar niðurstöður listasmiðju þar sem unnið er með tilfinningar og fjölbreytileikanum fagnað. Þátttakendurnir leitast við að tjá tilfinningar sínar í gegnum fjölbreytta miðla og skoða á sama tíma sjálfið í gegnum frjálsa sköpun og tjáningu út frá tilfinningum hvers og eins. Listakonan Sigríður Björk Hafstað mun leiða vinnusmiðjur með eigin uppsetningu á þátttökuverki sem mun vaxa og breytast á meðan Barnamenningarhátíð stendur. Borgarbókasafnið í Spönginni verður útbúið sem opið vinnurými fyrir þátttakendur til að kanna og tjá tilfinningar sínar, upplifun og sjálfsmynd með ýmsum listrænum miðlum.
Þátttakendur verða hvattir til að hugsa um mismunandi tilfinningar sem þeir finna, með fjölbreyttum miðlunarleiðum. Notaðir verða litir, klippimyndir og óhlutbundin form til að tákna ólíkar tilfinningar með fjölbreyttum aðferðum. Rætt verður hvernig umhverfið hefur áhrif á upplifanir okkar og tilfinningar. Þátttökuverkið verður ein sameiginleg innsetning sem fagnar fjölbreytileikanum. Gestir og gangandi geta bætt við innsetninguna sem byggir á vinnu nemenda í grunnskólum í Grafarvogi. Lögð verður áhersla á fjölbreytileika tilfinninga þar sem þátttakendum er frjálst að kanna ólíkar tilfinningar.
Vinnusmiðjunni er ætlað að veita þátttakendum dýpri skilning á mikilvægi fjölbreytileikans. Þeir verða hvattir til að fagna sérkennum sínum, skilja og virða margbreytileikann.
Verkefnið er unnið í samvinnu við LÁN verkefnið- Listrænt ákall til náttúrunnar.
Verið velkomin í opna vinnusmiðju fimmtudaginn 10. apríl kl. 14-17.
Sýningin stendur svo yfir á bókasafninu í Spönginni til 30. maí.
Öll velkomin!
Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen, sérfræðingur
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is, s. 411 6230