Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins

Viltu taka þátt?  Skráning hér fyrir neðan.

Hvað er ljóðaslamm?

Ljóðaslamm er keppni í tjáningu þar sem orðið og ljóðið eru aðalatriðin. Flutningurinn er sviðslist og getur tengst ýmsum sviðslistum. Hefðbundinn ljóðaupplestur telst ekki til ljóðaslamms, heldur er áherslan á ljóðaflutning sem sviðslist og getur flytjandi/flytjendur farið með ljóðið samhliða tónlist, myndlist eða leiklist. Dómnefnd dæmir svo hvert atriði út frá ljóðinu sjálfu, auk ástríðu og eldmóðs í flutningi, stíl og innihaldi og stundum líka út frá viðbrögðum áhorfenda.

Ljóðaslammið á rætur sínar að rekja til Chicago á níunda áratugnum. Hugmyndin með fyrstu keppninni var að færa ljóðið frá akademíunni til almennings. Bandaríska ljóðskáldinu Marc Smith fannst ljóðasenan orðin stíf og stirðbusaleg svo hann hóf tilraunir á „opnum hljóðnema“ ljóðakvöldum með því að snúa þeim upp í keppi og fá þátttakendur til þess að slamma af eldmóði og með stíl til þess að hrista upp í hlutunum.


Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins á safnanótt

Ljóðaslamm hefur verið reglulegur og vinsæll viðburður á Borgarbókasafninu í gegnum tíðina. Þekkt skáld, tónlistarfólk og sviðslistafólk hafa stigið sín fyrstu skref í Slamminu, enda er ljóðaslamm, eða Poetry Slam, listform sem útfæra má á fjölbreyttan máta.
 

Upplýsingar fyrir þátttakendur:

Hvenær er næsta ljóðaslamm? 
Ljóðaslamm 2024
verður haldið í Borgarbókasafninu Grófinni á Safnanótt, þann 2. febrúar. Nánari tímasetning auglýst síðar.

Reglur
Reglan er sú að ljóðið eða textinn sjálfur verður að vera frumsaminn og að gæta verður þess að vera ekki særandi gagnvart einstaklingum og/eða hópum.

  • Ljóðaslammið er opið öllum, 16 ára og eldri. Einstaklingar eða hópar velkomnir.
  • Minnisblað er leyfilegt á sviði.
  • Ljóðið þarf að vera frumsamið af flytjanda eða öðrum á sviðinu.
  • Ljóð má taka hámark 3 mínútur í flutningi.
  • Ljóð má vera á íslensku eða ensku.
     

Hvernig sæki ég um þátttöku?
Þú sendir inn umsókn með drögum að hugmynd um hvernig atriðið verður flutt á netfangið: ljodaslamm@borgarbokasafn.is.
Í umsókninni þarf að koma fram:

  • Nafn flytjanda
  • Aldur
  • Hugmynd að atriði / flutningi


Námskeið
Öllum sem skrá sig til þátttöku í Ljóðaslammið stendur til boða að taka þátt í fjölbreyttum námskeiðum þar sem meðal annars verður farið yfir sviðsframkomu og ljóða -og prósasmíð, auk aðstoðar við að fínpússa atriðið fyrir lokakeppnina á Safnanótt. Athugið að mikilvægt er að skrá sig á hvert og eitt námskeið hér til hægri. 

 

Sigurvegarar fyrri ára:

2023 - Sunna Benjamínsdóttir Bohn 
2017 - Jón Magnús Arnarsson
2015 - Halldóra Líney Finnsdóttir og Hekla Baldursdóttir 
2014 - Brynjar Jóhannesson
2013 - Kælan mikla - Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, Laufey Soffía Þórsdóttir og Margrét Rósa Dóru- Harrysdóttir
2012 - NYIÞ


Kælan mikla

Kælan mikla sigraði Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins árið 2013 svo þær eiga tíu ára afmæli þegar næsta Ljóðaslamm verður haldið. Á þessum áratug hefur ýmislegt á daga þeirra drifið, en sveitin hefur meðal annars spilað á hátíðum í Evrópu og Bandaríkjunum og hitað upp fyrir Robert Smith í The Cure, Pixies, Placebo og frönsku post-metal sveitina Alcest.

Úr viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 2013, eftir sigurinn: Að sögn söngvarans Laufeyjar Soffíu Þórsdóttur var Kælan mikla stofnuð í kringum keppnina. 

„Sólveig er mjög mikið í því að semja. Við vorum að leika okkur að spila saman og hún var búin að skrá sig í keppnina en vissi ekki hvað hún ætlaði að gera. Okkur fannst það koma vel út að flytja ljóðin hennar saman,“ segir hún. „Það getur vel verið að við höldum áfram að semja við ljóðin hennar eftir þetta.“ Aðspurð segir Laufey Soffía sigurinn hafa komið þeim á óvart. „Já, þetta var rosalega skemmtilegt.“

Kæluna miklu skipa þær Laufey Soffía, Margrét Rósa Dóru-Harrysdóttir og Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir.

(Ljósmynd: Magnús Andersen)