Ljóðaslamm 2012
Ljóðaslamm 2012

Ljóðaslamm 2012

Þema: MYRKUR

Fimmta ljóðaslamm Borgarbókasafns var haldið á Safnanótt í Reykjavík föstudagskvöldið 10. febrúar 2012. Þar kepptu tíu atriði til sigurs og var dagskráin afar fjölbreytt og metnaðarfull. Viðfangsefnið var „myrkur“ í takt við þema Vetrarhátíðar í ár og tókust ljóðskáldin á við það með mismunandi hætti. Sumir stigu á stokk með hefðbundna texta en aðrir lögðu meira upp úr sviðsmynd og heildaráhrifum og þótti hinni myrku sveit NYIÞ takast einkar vel upp að þessu leyti, enda vakti sláandi atriði þeirra, „Til eru hræ“ beinlínis hroll með áhorfendum. NYIÞ er skipað fjórum ungum mönnum sem koma nafnlausir og óþekkjanlegir fram í svörtum klæðum, og stóð hópurinn uppi sem sigurvegari kvöldsins. Textann fluttu þeir við undirleik sellós, keðju, trommu og harmónikku. Í öðru sæti var Ísak Regal með rökkurljóðið „Leyndardómur í sígarettupakka“, æðandi rennsli í gegnum myrkari hliðar borgarinnar, þar sem hnignun og vonleysi renna saman við draumóra um ofurhetjudáðir. Í þriðja sæti voru loks þær Jófríður Ákadóttir og Áslaug Rún Magnúsdóttir með dulúðuga „Rökkurblíðu“ sem var rafmagnaðasta atriði slammsins þetta árið, þar sem brengluð rödd myrkursins reis upp úr ágengu suði. Þess má geta að þær stöllur eru meðlimir hljómsveitarinnar Samaris, sem sigraði Músíktilraunir á síðasta ári. 

Í dómnefnd voru leikkonurnar Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og María Þórðardóttir, Stefán Máni rithöfundur, tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé og Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur.

Til eru hræ í flutningi NYIÞ:

 

Rökkurblíða þeirra Jófríðar og Áslaugar:

Kynnir kvöldsins var Kári Viðarsson.

Ljóðaslamm 2012 var í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Flokkur
Merki
UppfærtMiðvikudagur, 12. apríl, 2023 15:05