Ljóðaslamm 2015
Ljóðaslamm 2015

Ljóðaslamm 2015

Þema: SYKUR

Sigurinn í áttunda ljóðaslammi Borgarbókasafns Reykjavíkur var dísætur eins og búast mátti við. Ljóðaslammið fór fram í Grófarhúsi á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar og þemað var ‚sykur’.

Alls kepptu níu atriði til úrslita og voru þátttakendur 11 talsins, á aldrinum 15-24 ára. Flytjendur nýttu sér ýmsa möguleika til sviðsetningar á ljóðum sínum og föndruðu með þemað á margvíslegan máta, allt frá því að bursta tennur með sírópi yfir í að dansa á sviðinu.

Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins er skilgreint á afar opinn hátt sem einskonar ljóðagjörningur og er áherslan ekki síður lögð á flutninginn en á ljóðið sjálft.

Fimm manna dómnefnd valdi þrjú bestu atriðin. Í henni sátu fyrir hönd Borgarbókasafns María Þórðardóttir leikkona og Sunna Björk Þórarinsdóttir fyrrverandi meðlimur Brúðarbandsins. Aðrir voru Björg Magnúsdóttir rithöfundur og tónlistarmennirnir Andri Már Enoksson og Svavar Knútur.

Kynnir var Marlon Pollock.

Þær Halldóra Líney Finnsdóttir og Hekla Baldursdóttir fluttu kraftmikið og frískt ljóð sem þær nefndu „Gervisykrað samfélag“. Í textanum komu þær víða við og undirstrikuðu boðskapinn með faglegum flutningi. Þess má geta að þær stöllur eru 15 ára gamlar.

 

Í öðru sæti var Fríða Ísberg með ljóðið „Aína“. Yfirvegaður og einlægur flutningur var það sem snerti sérstaklega við dómnefndinni.

 

Í þriðja sæti var Þór Þorbergsson með líflegt og lífrænt ljóð um „London“.

Ljósmynd tók Dagur Gunnarsson.

Flokkur
Merki
UppfærtFöstudagur, 2. september, 2022 13:23