
Ljóðaslamm | „Ég neita“ bar sigur úr býtum
Það var rífandi stemmning í Grófinni á Vetrarhátíð þegar Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins fór fram í tólfta skiptið, en í ár var metþátttaka í slamminu. Hópurinn var ekki bara stór heldur líka afar fjölbreyttur og atriðin sömuleiðis. Það var því úr vöndu að velja fyrir dómnefndina, en niðurstaðan varð þó þessi:
Sigurvegari Ljóðaslammsins 2025 var Marjón með ljóðið Ég neita.
Í öðru sæti hafnaði Frida Martins með ljóðið Mystery creatures can dance
Í þriðja sæti var tvíeykið Viktsya&Yuki sem fluttu A polyphonic fever//confession
Dómnefndina í ár skipuðu þau Steinunn Jónsdóttir, úr Reykjavíkurdætrum; Jón Magnús Arnarsson, vinningshafi Ljóðaslamms 2017 og Örvar Smárason, rithöfundur og meðlimur hljómsveitanna FM Belfast og MÚM.
Kynnir kvöldsins var Steiney Skúladóttir og á meðan dómnefndin réð ráðum sínum steig uppistandarinn Sölvi Smárason á stokk og skemmti áhorfendum.
Aðrir þátttakendur í Ljóðaslamminu voru:
Maria Thorlacius - Andvökunótt
Ernest Boakye - Hello Everyone! Meet Someone
Þór Wium - Hún hluturin
Sindri „Sparkle“ Freyr - Fordómablinda
Embla Rún Hall - Mætti
Elías Knörr - GREINDIN ER GERVI
Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir - Eitruð
Sigurður Ingólfsson - Unglingurinn í skóginum
Gianmarco - Party?
Ljóðaslamm á uppruna sinn í Chicago á níunda áratugnum og snýst um flutning frumsaminna ljóða. Ólíkt hefðbundnum ljóðaupplestri er áhersla lögð á ljóðaflutning sem sviðslist, sem getur birst á margvíslegan og oft skemmtilegan hátt. Viðburðurinn á Vetrarnótt var vel sóttur og frábær stemmning í húsinu meðan þátttakendur fluttu atriði sín. Ljóst er að áhugi á ljóðaslammi er mikill hér á landi og hugsanlega má tengja vaxandi áhuga við aukinn sýnileika ljóðlistar í samfélaginu, með viðburðum eins og Ljóð & vinir og Reykjavik Poetics.