Ljóðaslamm 2024

Ellefta ljóðaslammskeppni Borgarbókasafnsins var haldin á Safnanótt 2. febrúar.

Þór Wiium, María Thorlacius Yngvinsdóttir, Ágúst Elí Ásgeirsson, Stavroula Vayena, Kristi Kariana Dahl Sæternes og Sindri "Sparkle" Freyr

Sex keppendur stigu á stokk í Grófarhúsinu og varð það Þór Wiium sem bar sigur úr býtum með ljóðið Merktur. Í öðru sæti lenti Kristi Kariana Dahl Sæternes með And I will try to believe it og í þriðja sætið hreppti Ágúst Elí Ásgeirsson með flutning á ljóði sínu Animestrákurinn.


Merktur

Flutningur Þórs, eða Tóta eins og hann er oftast kallaður, hitti áhorfendur og dómnefnd beint í hjartastað. Örugg sviðsframkoma og berskjölduð frásögn Tóta um upplifun hans á því að vera trans karlmaður náðu eyrum og augum allra viðstaddra. Ljóðið Merktur er einlæg frásögn með fallegri og vandaðri ljóðrænu og var dómnefnd á því að þarna væri á ferð hæfileikaríkt skáld sem vert væri að fylgjast með í framtíðinni. Hér er viðtal við Tóta í Víðsjá sem tekið var eftir sigurinn.

Við óskum Tóta innilega til hamingju!

Hér má horfa á flutninginn:

Þátttakendur voru á aldursbilinu u.þ.b. 20-40 ára og einstaklega ánægjulegt að heyra raddir þessa fjölbreytta hóps á Borgarbókasafninu á Safnanótt.

Í dómnefnd sátu Steinunn Jónsdóttir (úr Reykjavíkurdætrum), Jón Magnús Arnarsson (vinningshafi Ljóðaslamms 2017) og Örvar Smárason (rithöfundur og meðlimur hljómsveitanna FM Belfast og MÚM).

Ljóðaslamm  á rætur sínar að rekja til Chicago á níunda áratugnum og felur í sér flutning á frumsömdu ljóði. Flutningurinn er ekki í formi hefðbundins ljóðaupplesturs heldur er áherslan lögð á ljóðaflutning sem sviðslist og getur tekið á sig ansi skemmtilegar myndir.
 

Flokkur
Merki
UppfærtMánudagur, 14. október, 2024 13:11