Glæpafár á Íslandi

Glæpafár á Íslandi - Viðburðaröð

Glæpafár á Íslandi er heiti á röð viðburða sem Hið íslenska glæpafélag efnir til í samstarfi við almenningsbókasöfn landsins til að fagna 25 ára afmæli félagsins. Viðburðirnir tengjast allir íslenskum glæpasögum og glæpasagnaritun með einhverjum hætti og verða haldnir vítt og breitt um landið. Ákvörðun félagsins um að véla bókasöfn landsins til samstarfs og vilji safnanna til að taka þátt í plottinu þarf engum að koma á óvart, því fátt er eftirsóttara meðal notenda íslenskra almenningsbókasafna en einmitt íslenskar glæpasögur og íslenskar þýðingar á erlendum glæpasögum.

Síðustu 25 ár eða svo hefur sannkallað glæpafár geisað í íslenskum bókmenntum. Svo vitnað sé í formann félagsins þá er „þetta glæpafár engin tilviljun, heldur afleiðing skipulagðrar glæpastarfsemi sem hófst þegar nokkrar glæpsamlega þenkjandi sálir rottuðu sig saman í reykfylltu bakherbergi árið 1999, stofnuðu Hið íslenska glæpafélag og byrjuðu að plotta eitt allsherjar útsmogið samsæri um að koma íslensku glæpasögunni rækilega á íslenska bókmenntakortið.“

Óhætt er að segja að það markmið hafi náðst – og gott betur – á þeim tæpa aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun félagsins. Þrátt fyrir það, eða kannski einmitt þess vegna, heldur félagið sinni  skipulögðu glæpastarfsemi óhikað áfram og fagnar velgengni íslenskra glæpasagna og höfunda þeirra með mörgum og fjölbreyttum viðburðum á afmælisárinu, undir yfirskriftinni Glæpafár á Íslandi.

Viðburðirnir eru kynntir á Facebook síðu Hin íslenska glæpafélags og á vefsíðum þátttökusafna um allt land. 

Nánari upplýsingar veitir:

Guðrún Dís Jónatansdóttir, deildarstjóri miðlunar
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is