Fríbúð | Hring eftir hring
Fríbúð – hvað er það?
Í Fríbúðinni í Gerðubergi eru allir hlutir ókeypis. Þangað getur þú komið þegar þig vantar eitthvað eða þegar þú vilt gefa frá þér hluti sem þú þarft ekki lengur. Úrvalið er árstíðarbundið; þú finnur mögulega skólatösku og hlýja vettlinga að hausti, jólaskraut í desember, skíðabúnað fyrir veturinn og reiðhjól þegar vorsólin fer að skína!
Skilakassar
Í Fríbúðinni er að finna skilakassa fyrir batterí, raftæki, brotið leirtau, ónýta potta og pönnur, kertaafganga og ýmislegt fleira.
Hringrásarsafnið
Í Fríbúðinni finnur þú einnig sjálfsafgreiðsluskápa Hringrásarsafnsins, fulla af allskonar hlutum, sem hægt er að fá að láni.
Opnunartími
Fríbúðin fylgir opnunartíma Gerðubergs og er staðsett á efri hæð hússins.
Hér koma hlutir og halda áfram, hring eftir hring. Í Fríbúðinni gefur þú af þér spjarirnar, hlutina og þekkingu þína. Þú lánar þekkingu og lærir eitthvað nýtt af öðrum. Gerum við, bætum, eflum, mætumst og deilum. Höldum hlutum og þekkingu inni í hringrásarhagkerfinu.
Spyrnum við fótum og minnkum sótsporið - saman í hring.
Það er skemmtilegt að endurnýta.
Rusl er gull.
Viðburðir fyrir stóra sem smáa
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá sem snýr að skapandi leiðum til að endurnýta alls konar dót, huga að umhverfinu, rækta blóm og jurtir, gera við hluti og gefa þeim nýtt líf. Langar þig að halda eigin viðburð í Fríbúðinni? Við tökum öllum grænum hugmyndum fagnandi!
Græna bókasafnið
Bókasöfn eru í eðli sínu vistvæn. Þar færðu efni að láni og skilar svo aftur inn í hringrásina. Með Fríbúðinni tökum við þetta skrefinu lengra í samstarfi við Góða hirðinn og skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg. Við hvetjum notendur til að breyta neyslumunstri sínu, kíkja reglulega í Fríbúðina og taka þátt í fræðslu og skemmtilegum viðburðum í Gerðubergi.
Nánari upplýsingar veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri Borgarbókasafnsins Gerðubergi
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is | 411 6170