Vestur í bláinn

Um þennan viðburð

Tími
10:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Sýningar

Vestur í bláinn | Tónlistarverkefni og listasýning

Fimmtudagur 3. september 2020 - Miðvikudagur 30. september 2020

Vestur í bláinn miðar að því að bjóða upp á rými fyrir alls konar raddir, ólík tungumál og margvíslegar sögur af fólki af fjölbreytilegum uppruna, sem sjaldan heyrast í listaheiminum eða á opinberum vettvangi.


Á Bókasafninu í Gerðubergi eru listaverk Ewu Marcinek Second skin til sýnis ásamt tónverkinu Anna eftir Julius Pollux.


Verkin eru hluti af sýningunni Vestur í bláinn sem er fjölþætt listaverkefni um innflytjendur á Íslandi. Verkefnið býður upp á næma og ljóðræna nálgun á hugmyndum um það ókunnuga og fer fram á nokkrum stöðum í Reykjavík. Tónlist verkefnisins verður gefin út rafrænt 1. september og listsýningin mun eiga sér stað á tíu mismunandi opinberum stöðum í Reykjavík frá 3. september til 30. september.

 

Á safninu er sóttvarnarreglum fylgt í hvívetna. Sjá nánar hér


Ókeypis aðgangur. Sýningin er aðgengileg á opnunartíma safnsins í Gerðubergi
Vegna samkomutakmarkana verður enginn opnunarviðburður. 
Gestum er boðið að hlusta á tónverkið á snjallsímum með því að skanna inn QR-kóða. Einnig er hægt að koma með eigin heyrnatól eða tengja spilarann við síma.


Um tónverkið Anna

eftir Julius Pollux
Anna vinnur í umönnunarstarfi og í samtökum fyrir verkafólk. Hún flutti til Íslands eftir að hún kláraði MA-gráðuna sína í Kraków.
Í Reykjavík hefur hún unnið í fjölmörgum störfum, til dæmis sem hótelþerna, ræstingarkona, þjónn og sem leiðbeinandi á frístundaheimili.
Upptökurnar í þessu lagi eru úr símtali Önnu við vinkonu hennar í Póllandi. Auk þess heyrum við brot úr ræðu sem Anna hélt í tengslum við kröfugöngu í verkfalli láglaunafólks í Reykjavík vorið 2019. Hún hélt ræðuna sína bæði á ensku og pólsku og tók málstað láglaunafólks og erlends verkafólks. Fólk af pólskum uppruna telst vera um 5% af íbúum á Íslandi og þar með stærsti hópur innflytjenda.


Um listaverkið Second skin

eftir Ewu Marcinek
Vinnugalli gerður úr gulum plasthönskum með saumum sem notaðir eru til að loka sárum og vernda líkamann frá hörðum, særandi eða einfaldlega óþægilegum raunveruleika í nýju landi. Innblástur verksins er sóttur í viðfangsefni listakonunnar Wiolu Ujazdowska um heim erlendra verkakvenna á Íslandi.


Um Vestur í bláinn

Vestur í bláinn byrjaði sem tilraunakennt tónlistarverkefni Juliusar Pollux, þar sem hann tengir saman raddir innflytjenda og flóttafólks á Íslandi og sína eigin upplifun af viðfangsefninu í gegnum tónlist.
Claire Paugam og Julius Pollux gengu síðan til samstarfs til að víkka verkefnið út; gera listsýningu úr því, færa hið pólitíska inn í ljóðrænt samhengi, hvetja til hlustunar og upplifunar á sögum, aðstæðum, tilfinningum og bakgrunni fólks með sjónarhorn húmanisma og samkenndar að leiðarljósi.
Myndlistarfólki var boðið að eiga í samtali við tónlistarverkefnið og afrakstur þess eru þau tíu listaverk sem verða sýnd á sýningunni. Listakonur og listamenn sem taka þátt eru ÚaVon, Hugo Llanes, Melanie Ubaldo, Bára Bjarnadóttir, Eva Bjarnadóttir, Ewa Marcinek, Claire Paugam og Julius Pollux Rothlaender. Sýningin mun eiga sér stað í tíu mismunandi almenningsrýmum um borgina: Hlemmi, Nýlistasafninu, Hörpu, Mjódd, Andrými, Vesturbæjarlaug, Borgarbókasafninu Gerðubergi, Ráðhúsinu, Kaffi Laugalæk og Hafnarhúsinu.

Upplýsingar um sýningardagskrá í heild má finna hér: Vefsíða Vestur í bláinn

Sýningin á Facebook


Frekari upplýsingar veita sýningarstjórarnir:
Claire Paugam: clapaugam@hotmail.fr
Julius Pollux Rothlaender: juliuspollux.net@gmail.com