Um þennan viðburð
Sýning | Svuntusögur
Ingibjörg H. Kristjánsdóttir sýnir svuntur og sögu þeirra
Ingibjörg H. Kristjánsdóttir (Agga) er fædd árið 1946 á Siglufirði og hefur búið í Árbænum hátt í 30 ár. Hún er leikskólakennari og hefur frá barnæsku haft mikinn áhuga á allri handavinnu.
Svuntur hafa átt hug Ingibjargar frá þá að hún handsaumaði sínar fyrstu svuntur í barnaskóla, þá í 5. bekk. Síðan hefur hún saumað fjölmargar svuntur bæði í höndum og með aðstoð véla. Hún hefur þó ekki látið þar við sitja heldur hefur hún kynnt sér sérstaklega sögu svuntunnar. Hvað er svunta og hvernig og hvers vegna urðu þær upprunalega til? Eitt er víst að svuntan hefur að geyma ýmsa leyndardóma og er flóknara fyrirbrigði en flesta grunar. Saga svuntunnar er samofin sögu kvenna og oftar en ekki tengist hún hjátrú og ýmiskonar alþýðuspeki.
Á sýningunni verða nokkrar af þeim fjölmörgu svuntum sem Ingibjörg hefur saumað í gegnum tíðina auk fróðleiks um svunturnar.
Aðeins 9 ára gömul hóf Ingibjörg handavinnunám hjá frk. Arnfinnu á Siglufirði. Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og að því loknu lá leiðin í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Árið 1985 útskrifaðist Ingibjörg sem leikskólakennari frá Fóstruskóla Íslands og 2000-2001 stundaði hún textílnám í Kennaraháskóla Íslands. Ingibjörg starfaði sem sem leikskólastjóri og leikskólakennari í 28 ár.
Nánari upplýsingar veitir:
Katrín Guðmundsdóttir, deildarstjóri Borgarbókasafninu Árbæ
katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is | 411 6230