Tarfur á vegi, Skarphéðinn G. Þórisson
Tarfur á vegi

Um þennan viðburð

Tími
Á opnunartíma
Verð
Frítt
Tungumál
-
Sýningar

Ljósmyndasýning | Myndir Skarphéðins

Laugardagur 8. mars 2025 - Þriðjudagur 8. apríl 2025

Skarphéðinn G. Þórisson (1954-2023) var eftirminnilegur maður sem hafði mikil áhrif á samferðarfólk sitt. Hann var náttúrufræðingur að mennt og sérsvið hans voru hreindýr á Íslandi. Hann bjó lengst af í Fellabæ, kenndi við Menntaskólann á Egilsstöðum ásamt því að hafa eftirlit með hreindýrunum fyrir austan. Frá árinu 2000 starfaði Skarphéðinn við vöktun stofnsins á vegum Náttúrustofu Austurlands þar sem hann flaug yfir heimasvæði hreindýra, myndaði dýrin og fylgdist með viðkomu þeirra. Enginn hafði jafn yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum hreindýrum, sögu þeirra, vistfræði og lífsháttum eins og hann.

Náttúran í öllum sínum myndum var líf og yndi Skarphéðins og hann vann að því að vernda hana, mynda, gefa út rit og fræða um hana og leiðsegja fólki um hana, ýmist gangandi, ríðandi, siglandi eða akandi, innanlands sem utan. Hann var einn af máttarstólpum Náttúruverndarsamtaka Austurlands ásamt fjölmörgu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.

Skarphéðinn tók ógrynni af ljósmyndum á ferðum sínum, sem hann var ætíð fús til að deila með öðrum ef á þurfti að halda. Myndirnar sem sjá má á þessari sýningu voru meðal þeirra sem voru til sýnis síðastliðið sumar í Sláturhúsinu, Menningarmiðstöð á Egilsstöðum á sýningunni Hreindýralandið. Ragnhildur Ásvaldsdóttir setti þá sýningu upp og í texta um hana segir: „Skarphéðinn skrásetti lífshætti dýranna og umhverfi þeirri og með sínu næma ljósmyndaauga náði hann að fanga augnablik sem okkur eru að mestu hulin. En það voru ekki bara dýrin sjálf sem hann beindi linsunni að; náttúran og umhverfið átti hug hans og hjarta, síbreytileg náttúran og munstur hennar.“

Fyrir síðustu jól kom út hjá bókaútgáfunni Bókstaf bókin Á slóðum íslenskra hreindýra: Í fylgd með Skarphéðni G. Þórissyni, sem hann hafði lagt drög að áður en hann lést.

Verið öll velkomin á opnun sýningarinnar, laugardaginn 8. mars kl. 14-16!

Sýninguna má skoða á opnunartíma safnsins, mán-fim 10-18, fös 11-18 og lau 11-16.

Frekari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen, sérfræðingur
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is, s. 411 6230

 

Bækur og annað efni