
Um þennan viðburð
Innsetning | Huldar slóðir
Staðsetning: 2. hæð Hringurinn
Velkomin á opnunina 25.janúar kl. 15:00-17:00
Innsetningin Hidden Trails (ísl. Huldar slóðir), samanstendur af lágstemmdri hljóðmynd og mörgum ólíkum áþreifanlegum skúlptúrum sem framkalla hljóð við snertingu og meðhöndlun. Bæði hljóð- og hugmyndaheimur innsetningarinnar sækir innblástur til bókasafna og þætti þeirra í hversdeginum. Þar sem bókasöfn eru íverustaðir sem bjóða upp á að rannsaka, uppgötva og verja tíma innan um og með bókum, í smágerðum og fínlegum hljóðheimi bókasafnanna.
Gestir eru hvattir til þess að nálgast innsetninguna á sama hátt, út frá forvitni og könnun þar sem þeir geta tekið þátt og rannsakað hljóðheim sýningarinnar með því að leika á skúlptúrana.
Verkið var pantað af hátíðinni Donaueschinger Musiktage og var upprunalega sett upp í Galerie im Turm á Donaueschinger Musiktage 2024.
Lilja María Ásmundsdóttir vinnur oft með skúlptúrísk einkenni hljóðs og efnis. Verk hennar taka á sig form innsetninga, hljóðskúlptúra, tónverka og sýninga þar sem ýmsar listgreinar mætast. Verkin eru hönnuð út frá því að skapa ferli sem varpa ljósi á hvernig hugmyndir verða til út frá því að vinna með mismunandi efnivið, í flæði á milli einstaklinga og í samhengi við umhverfi sitt.
Innsetningin er hluti af Myrkum Músíkdögum.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, verkefnastjóri
gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is | 411 6145