
Um þennan viðburð
Sýning | Fígúratívt landslag
Karen Björg Jóhannsdóttir hefur alla tíð heillast af landslagsverkum. Slík verk sýna oft stórbrotna náttúru, þar sem víðáttumikil landsvæði fá að njóta sín. Í sínum eigin verkum dregur Karen Björg fram bjarta og skæra liti, sem stjórna ferlinu við gerð verkanna, mikið flæði er í pensilstrokunum og lokaútkoman er ekki ákveðin fyrirfram. Sköpunarferlið er eins konar ferðalag.
Hún segir: "Litróf landslagsins ætti alls ekki að vera háð því sem við sjáum með berum augum, því handanheimurinn er svo mikilfenglegur í litadýrð sinni og verund. Minningin um allt sem var og tilfinningin fyrir því sem verða mun eru allt í kringum okkur, öllum stundum. Til að mynda í golunni, eða ofan í jörðinni. Fátt er jafn óumflýjanlega fígúratívt og birtingarmyndir hins mannlega í landslaginu."
Karen Björg Jóhannsdóttir er starfandi listmálari, búsett í Reykjavík. Hún lauk 2 ára diplómu af listmálarabraut Myndlistarskólans í Reykjavík árið 2018. Síðan þá hefur hún tekið þátt í ýmsum samsýningum í Reykjavík auk þess að hafa haldið einkasýningar. Karen vinnur oft á mörkum hins hlutbundna og óhlutbundna og litagleðin er sjaldan langt undan.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is | 411 6230