Skíðaríma – Upplestur, tónlist og ljósmyndasýning
Smá forskoðun á Íslandi
Þær stöllur Solfrid Vestli og Karin Rosvold Hognes sækja nú Ísland heim og standa fyrir dagskrá, sem fer fram á nýnorsku. Solfrid flytur kvæðabálkinn Skíðarímu á nýnorsku og Karin leikur íslensk þjóðlög á píanó. Á meðan á tónlistarflutningnum stendur verða sýndar náttúruljósmyndir á skjá teknar af norsk-íslenska ljósmyndaranum Mats Wibe Lund.
Höfundur Skíðarímu er ókunnur en kvæðið er talið vera frá síðari hluta fimmtándu aldar og segir frá hinum óborganlega Skíða og ævintýrum hans í Valhöll. Ríman er ekki hefðbundin sem slík heldur skopstæling á kvæðagreininni. Í Bókmenntasögu II segir um Skíðarímu:
Hún er stök en þó jafnlöng og ýmsir rímnaflokkar, rösklega tvö hundruð erindi. Hún er ekki varðveitt í neinum handritum eldri en frá 18. öld en hins vegar er getið um hana í ritum frá upphafi 17. aldar og þá sem gamalt kvæði. Málið á rímunni bendir til að hún muni varla yngri en frá 15. öld. Ríman er vafalaust kveðin á Vesturlandi, nánar tiltekið Dalasýslu.
Solfrid og Karin starfa saman á bókasafni Stjørdal í Þrændalögum í Noregi. Solfrid þýddi kvæðið í tengslum við meistararitgerð sína. Karin er tónlistarmenntuð og hefur útsett tónlistina sérstaklega fyrir þessa dagskrá. Í sameiningu leitast þær við að skapa stemningu í anda hinnar íslensku kvöldvöku 15. aldarinnar.
Hér má lesa Skíðarímu í þýðingu Solfrid á nýnorsku:
https://heimskringla.no/wiki/Skiderimet_(Solfrid_Vestli)
Verið öll hjartanlega velkomin. Ókeypis aðgangur.
Viðburðurinn fer fram á Torginu 1.hæð í Grófinni.
Nánari upplýsingar veitir:
Solfrid Vestli
solfrid.vestli@stjordal.kommune.no
Guðrún Dís Jónatansdóttir, deildarstjóri
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is | 411 6115