Um þennan viðburð

Tími
17:30 - 18:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir
Fræðsla
Kaffistundir

Ljóðakaffi | Vorjafndægurljóð

Fimmtudagur 23. mars 2023

Nú þegar dagurinn er jafnlangur um alla jarðkringluna koma Sigurbjörg Þrastardóttir, Ragnheiður Lárusdóttir og Brynja Hjálmsdóttir og ræða um skáldskapinn og sköpunarferlið. Sérstök áhersla verður lögð á bækur þeirra Hryggdýr, Kona/Spendýr og Kona lítur við. Bækurnar eru ólíkar eins og skáldin sjálf, en haldast fallega í hendur og á viðburðinum forvitnumst við um tilurð ljóðanna, baksöguna og horfum bæði til framtíðar og fortíðar með femínískum lesgleraugum.

 

Hryggdýr eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

„Hryggdýr bókarinnar er mannveran og umfjöllunarefnið tilvera hennar. Í gegnum ljóðabókina er lesandinn tekinn á gandreið um hlutskipti manneskjunnar í lífinu.“ (Úr gagnrýni Víðsjár, A.M.K, des. 2018)

 

Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur

Ljóðabókin Kona lítur við er gáskafullt og femínískt furðuverk í þremur hlutum, fullt af eftirminnilegum myndum og ögrandi meiningum. Í verkinu er víða litið við, svo sem í sjó, saumaklúbbi, hárgreiðslustofu, bílskúr og fylgsni undarlegs óramanns. Ferðalaginu lýkur loks í stórbrotinni útópíu. Kona lítur við er eftirtektarverð bók sem læðist aftan að lesendum.

 

Kona/Spendýr eftir Ragnheiði Lárusdóttur

Ljóðabókin Kona/Spendýr skiptist í fimm kafla. Fyrsti kaflinn ber yfirskriftina „Kona“, næsti „Spendýr“, þriðji „Úr dagbók húsmóður“, fjórði „Hversdagur hennar“ og sá fimmti „Og svo“.

Kaflarnir bera lýsandi heiti þar sem fjallað er um hvernig það er að vera kona í karlaheimi, burðast með þennan kvenlíkama, þriðju vaktina, allt áreitið frá karlmönnum sem konur þurfa að þola og loks það sem bíður sem er öllu óræðara en kann að vísa til þeirra veikinda sem eiga mjög greiða leið að uppgefinni og útslitinni konu.

Öll velkomin

Viðburður á Facebook

 

Nánari upplýsingar veita:
Halla Þórlaug Óskarsdóttir, verkefnisstjóri bókmenntaviðburða
halla.thorlaug.oskarsdottir@reykjavik.is | s. 411 6122

Guttormur Þorsteinsson, bókavörður
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | s. 411 6204

Bækur og annað efni