Soffía Auður

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir
Kaffistundir
Spjall og umræður

Bókakaffi | Hver var Arnfríður Jónatansdóttir?

Miðvikudagur 23. október 2019

Í næsta Bókakaffi fjallar Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur um skáldið Arnfríði Jónatansdóttur (1923–2006). Eina ljóðabók Arnfríðar, Þröskuldur hússins er þjöl, var nýverið endurútgefin af Unu útgáfuhúsi við góðar undirtektir. Arnfríður hefur stundum verið kölluð fyrsti kvenkyns módernistinn og gleymda atómskáldið. Þröskuldur hússins er þjöl kom út árið 1958 og eftir það birti hún aðeins eitt ljóð og eina smásögu. Soffía Auður mun fjalla um líf og ljóð Arnfríðar og veitir okkur innsýn í líf skáldsins í braggahverfum borgarinnar. Stofnendur Unu útgáfuhúss munu einnig segja frá endurútgáfunni og lesið verður úr bókinni. 

Soffía Auður Birgisdóttir starfar sem fræðimaður á Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún hefur verið virk í umræðu um bókmenntir hér á landi í hátt á fjórða áratug, gefið út bækur og skrifað fjölda greina og ritdóma. Í haust er væntalegt greinasafn eftir hana sem ber titilinn Maddama, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum.

 

Á Bókakaffi Borgarbókasafnsins bjóðum við gesti velkomna í spjall um bókmenntir af ýmsum toga ásamt rithöfundum, skáldum, fræðafólki og öðru áhugafólki um bækur og bókatengd efni. Í vetur bjóðum við upp á fjölbreytta dagskrá með góðum gestum; Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Friðgeiri Einarssyni, Karli Ágústi Úlfssyni og Kristínu Eiríksdóttur að ógleymdri jólabókakynningu þegar nær dregur jólum. 

Á Borgarbókasafninu eru einnig starfræktir leshringir og hvetjum við bókaorma á öllum aldri til að taka þátt. Fylgist með á Bókmenntasíðunni fyrir frekari fréttir og lestrarinnblástur.

 

Verið velkomin, frítt inn meðan húsrúm leyfir! 

 

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri bókmennta

gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is 
S: 661-6178

Merki

Bækur og annað efni