Kristín Svava og Kristín Eiríksdóttir

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir
Fræðsla
Kaffistundir

Bókakaffi | Kristín talar við Kristínu

Miðvikudagur 27. nóvember 2019

Í Bókakaffi Borgarbókasafnsins að þessu sinni hittast skáldkonurnar Kristín Eiríks og Kristín Svava og ræða nýútkomna ljóðabók þeirrar fyrrnefndu í bland við önnur verk hennar. Bókakaffin eru vettvangur fyrir óformlegar, fjörlegar og fræðandi umræður um bókmenntir og listir þar sem áhorfendur geta tekið virkan þátt í spjallinu.

Þrátt fyrir ungan aldur á Kristín Eiríksdóttir að baki fjölbreyttan feril en eftir hana liggja ljóðabækur, smásögur, leikrit og skáldsögur auk þess sem hún er menntaður myndlistarmaður og hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Fyrsta ljóðabók hennar, Kjötbærinn, kom út árið 2004 og á eftir fylgdu Húðlit auðnin og Annarskonar sæla.

Síðustu ár hefur Kristín hlotið verðskuldaða athygli fyrir skáldsögur sínar Hvítfeld og Elín, ýmislegt en ekki síður fyrir leikverkin Karma fyrir fugla, Skríddu og Hystory sem sýnd voru á fjölum Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins við góðan orðstír. Síðasta ljóðabók Kristínar, Kok, kom út árið 2014 en hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og óhætt er að segja að nýrrar ljóðabókar hennar sé beðið með eftirvæntingu.

Kristín Svava Tómasdóttir er ljóðskáld, þýðandi og sagnfræðingur, eftir hana liggja ljóðabækurnar Blótgælur (2007), Skrælingjasýningin (2011) og Stormviðvörun (2015). Hún hlaut verðlaun Hagþenkis 2018 fyrir fræðirit sitt Stund klámsins – Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Hún er jafnframt annar tveggja ritstjóra Sögu, tímarits Sögufélags.

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti svokallaðra Kaffistunda sem boðið er upp á reglulega í menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Þar koma bókaunnendur, lestrarhestar, rithöfundar og skáld saman og deilda ást sinni á bókmenntum. Fylgist með á viðburðasíðunni okkar eða á Facebook.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastjóri bókmennta

marianna.clara.luthersdottir@reykjavik.is

Bækur og annað efni