Verkstæðin - Algengar spurningar

Þarf ég bókasafnskort, kunnáttu, skilríki, dvalarleyfi, íslenskukunnáttu o.s.frv. til að nota Verkstæðin?

Öll eru velkomin á Verkstæðin en yngri börn ættu að vera í fylgd með fullorðnum. Aðeins þarf bókasafnskort þegar Verkstæði eru bókuð til einkanota og þegar Kompan er bókuð. 

Kostar að nota Verkstæðin?

Nei, það er frítt inn á Verkstæðin en við rukkum lágmarks efniskostnað fyrir þrívíddarprentun, vínilskurð og barmmerki. Hér getur þú séð gjaldskránna.

Takið þið við gjöfum? - t.d. tölvum eða hljóðfærum?

Við tökum fagnandi við tækjum sem eru í lagi og geta styrkt starfið! Vinsamlegast sendu okkur skilaboð ef þú ert með eitthvað sem þú telur að gæti nýst!

Má selja það sem maður býr til?

Allt sem þú býrð til á Verkstæðunum er þín eign og þú mátt gera það sem þér sýnist við það - þó er ekki í boði að fjöldaframleiða á Verkstæðunum. 

Má ég halda viðburð, kenna eða leiða smiðju í verkstæðunum?

Verkstæðin eru ekki aðeins fyrir kennara eða skapandi aðila heldur öll þau sem þurfa stað til að deila þekkingu. Við tökum fagnandi á móti hugmyndum að nýjum smiðjum á Verkstæðunum. Dæmi um smiðjur sem haldnar hafa verið eru: myndvinnsla, ljósmyndun, forritun, lagasmíði, raftónlistar- og endurvinnslusmiðjur.

Get ég bókað kynningu á Verkstæðunum?

Starfsfólk Verkstæða Borgarbókasafnsins leggur sig fram við að kynna það sem fer fram á Verkstæðunum svo sem á ráðstefnum og sýningum þar sem markhópurinn er skapandi starf með ungmenni og/eða kennarar Dæmi um kynningar eru Big Bang hátíðin, Innblástur o.fl. 

Ef þú vilt bóka kynningu frá okkur á viðburð tengdan kennslu eða skólastarfi þá sendu okkur línu en ef þú vilt fá kynningu fyrir fyrirtæki eða fyrir viðskiptaðila þá bendum við þér á að hafa samband við samstarfsaðila okkar Skema í HR eða Vísindasmiðjuna.