Francis Laufkvist Kristinsbur

Hlustandinn | Francis Laufkvist Kristinsbur

Francis Laufkvist Kristinsbur er 18 ára nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hán hefur mikinn áhuga á tónlist og öllu sem því fylgir. Plötusafnið er ávallt að stækka og fer mikil fjárfesting í það. Í MH lærir hán félagsfræði, sálfræði og sögu auk þess að vera í ritstjórn skólablaðsins Beneventum. Francis hefur líka dundað sér við að spila tónlist sjálft en lítið komið fram síðustu árin.

 

Algjört æði fyrir Bítlunum 

Ég byrjaði  að hafa almennilegan áhuga á tónlist þegar ég fór að hlusta á Bítlana. Ég fékk algjört æði fyrir þeim árið 2018 þar sem ég hlustaði á öll lögin á öllum albúmunum og reyndi að læra þau öll utan að. Eftir það fór ég að kynna mér betur tónlistarumhverfið um aldamótin 1960-1970 og fékk í þokkabót mikinn áhuga á hippahreyfingunni.

Ég hlusta ennþá mikið á klassískt rokk en tónlistarsmekkurinn minn er fjölbreyttari í dag. Ég hlusta meðal annars mikið á indí rokk, djass, diskó, glam rokk og allskonar instrumental tónlist.
 

Ziggy Stardust 

Sú plata sem ég hef mest verið að hlusta á núna er The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars eftir David Bowie. Þetta er svona plata þar sem erfitt er að velja uppáhalds lagið sitt því þau eru öll svo góð. Hún segir söguna af kynhlutlausu rokkstjörnunni Ziggy Stardust frá Mars er hann kemur með von til deyjandi jarðar. Þetta er fyrsta plata Bowie sem ég hef almennilega dottið í og ég hlakka til kynna mér hann betur.

 

Ævintýralegur blær frá Klaatu

Nýjasta platan í plötusafninu mínu er Magentalane. Hún er eftir Klaatu sem er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum og hefur veitt mér mikinn innblástur á listalegum sviðum. Ég keypti plötuna notaða á síðunni Discogs. Það kom mér á óvart að finna hana því ég hélt ég myndi aldrei finna Klaatu plötu á ásættanlegu verði. Hljómsveitin er þekktust fyrir sögusagnir um að hún væri endurkoma Bítlanna undir dulnefni. En í raun er hljómsveitin skipuð þremur kanadískum mönnum sem vildu að einbeiting hlustenda væri á tónlistinni sjálfri en ekki á þeim sem einstaklingum. Textarnir og tónlistin eru með skemmtilegum og ævintýralegum blæ. Lögin á plötunni finnast mér persónulega misjafnlega góð en góðu lögin bæta upp fyrir þau slakari.

 

Sígild plata ný í safnið

Önnur nýleg plata í safninu er Rumours eftir Fleetwood Mac. Mörg lögin hafði ég heyrt útundan mér áður, enda vinsæl, en upplifunin var öðruvísi þegar lögin spiluðust öll saman. Þótt að textarnir séu ekki allir hressir þá er tónlistin svo sannarlega að fara koma manni í gott skap.



Tilvistarkreppa og útrás


Því miður hef ég ekki verið að hlusta mikið á íslenska tónlist um þessar mundir. En tvær plötur sem eru mér ofarlega í huga eru and_vari eftir Ateria og Tína Blóm eftir Sucks to be you Nigel. Þær voru báðar gefnar út haust 2021 eftir núverandi eða fyrrum MH-inga og með innihaldsríkum íslenskum textum. En plöturnar tvær eru dálítið ólíkar. And_vari hefur tilraunakennda tónlist með þjóðlagablæ. Textinn er fallegur og platan tilvalin til þess að róa sig niður í tilvistarkreppu eða horfa dramatískt út á sjóinn. Á Tína Blóm er pönktónlist sem er hægt að hoppa, skoppa og hrista hausinn við. Þar er hægt að fá almennilega útrás, textinn er líka mjög skemmtilegur.


 

 

Fallegt píanóspil og bassi í vaxandi birtu

Önnur tónlist sem ég mæli með í minnkandi skammdegi og febrúarslyddu eru Men I Trust og Strawberry Guy. Bæði gefa út huggandi og kósí tónlist sem auðvelt er að dilla sér við. Lög Men I Trust eru með yndislegum bassa og Strawberry Guy fallegt píanóspil. Þetta er tónlist sem getur spilast undir nánast hverju sem er og það tónlistarfólk sem ég hef hlustað allra mest á síðustu mánuði. Það er erfitt að fá leið á þessum ljúfu tónum.



Borgarbókasafnið þakkar Francis Laufkvist kærlega fyrir að vera Hlustandinn að þessu sinni og mæla með áhugaverðri tónlist, bæði gömlu og nýju efni. Á safninu er til fjölbreytt safn af vínylplötum sem hægt er að lána heim. Einnig er hægt að mæta á Vínylkaffi, nýja viðburði í Grófinni og Úlfarsárdal, þar sem plata er sett á fóninn, fólk hlustar saman og spjallar um tónlistina og verkið í heild sinni. Á 5. hæð í Grófinni er tónlistardeildin staðsett og þar er hægt að koma og hlusta á staðnum alla daga og hafa það huggulegt.

UppfærtÞriðjudagur, 16. maí, 2023 14:38