Til hamingju! Verkefnið Stofan – A Public Living Room hlýtur hvatningarverðlaun Upplýsingar á Bókasafnsdeginum
Verkefnið Stofan – A Public Living Room hlaut hvatningarverðlaun Upplýsingar á Bókasafnsdeginum, sem haldinn er hátíðlegur ár hvert þann 8. september, á alþjóðlegum degi læsis. Hugmyndasmiðir og verkefnastjórar Stofunnar, þær Dögg Sigmarsdóttir og Martyna Karolina Daniel tóku við verðlaununum sem voru afhent á Morgunkorni Upplýsingar í Borgarbókasafninu Grófinni.
„Það er okkur mikill heiður að fá hvatningarverðlaun Upplýsingar og við erum þakklátar fyrir viðurkenninguna á vægi Stofunnar | A Public Living Room innan bókasafnssamfélagsins. Þegar þú byrjar á nýrri tilraun þá hefst hún alltaf á jaðrinum. Þú þarft að útskýra verkefnahugmyndina fyrir mörgum og réttlæta bröltið sem fylgir því að búa til nýjan stað. Verðlaunin færa Stofuna | A Public Living Room aðeins fjær jaðrinum og nær miðju bókasafnsheimsins. Nú finnum við fyrir auknum krafti til að halda tilraunastarfseminni áfram og þróa fjölbreyttari staði á vettvangi bókasafnsins með ennþá fleiri samstarfsaðilum sem gera bókasafnið að sínu eigin - almenningsrými sem öll geta orðið hluti af.
Við erum í skýjunum með Jaðrakaninum!“
Dögg er verkefnastjóri borgaralegrar þátttöku og Martyna er sérfræðingur á sviði fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu. Þær hafa á undanförnum árum unnið að þróunarverkefnum sem miða að því að finna nýjar leiðir til að fá fleiri til að nota bókasafnið sem vettvang til að tengjast öðrum, taka virkan þátt í skapandi starfi og samfélagsumræðu á eigin forsendum. Að við öll getum fundið okkar stað á safninu, þvert á tungumál og menningu á jafnréttisgrundvelli.
Smellið HÉR til að kynna ykkur verkefnið Stofan - A Public Living Room.
Frá vinstri: Pálína Magnúsdóttir, Þórný Hlynsdóttir, Martyna Karolina Daniel, Dögg Sigmarsdóttir og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Yfirskrift Bókasafnsdagsins er Lestur er bestur frá A-Ö og hélt Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, rithöfundur og teiknari, hugvekju sem var streymt til starfsfólks bókasafna um land allt. Hugvekjan var í senn bæði ástarbréf og minningargrein að sögn Lóu en hún lýsti því hvernig bækur og lestur hafa mótað sjálfsmynd hennar og búið til skjól og flóttaleiðir á ýmsum tímaskeiðum lífsins þegar tilvistarkreppan og kvíðinn hefur skotið upp kollinum.
Þess ber að geta að Lóa Hlín sem notar listamannsnafnið Lóaboratoríum mætir á Bókakaffi í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal 21. september n.k. en í kynningu segir að „áhugafólk um grín, volk og vesen ætti ekki að missa af þessu tækifæri til að skyggnast inn í veröld manneskju sem er nógu brjáluð (eða vitlaus) að vilja starfa sem listamaður á Íslandi“.
Til hamingju með daginn! Hlökkum til að sjá ykkur á bókasafninu!