Rithöfundur les upp

Ný íslensk orð búin til í Reykjavík

Fólk úr ólíkum áttum með fjölbreytt tungumál að móðurmáli komu saman í Grófinni og bjuggu til ný íslensk orð. Orðin sem urðu til við þetta tilefni fara í nýstárlega íslenska orðabók sem Borgarbókasafnið opnaði á degi íslenskrar tungu. Hér eru nokkuð dæmi um orð sem lesin voru upp á viðburðinum: 

lærleggssmíð, blundtakki, ómjólk, samkenndarfötlun, þagnarskuld, glundró, skásystkin, tvíheima eða tvíbúi , brjálæðisvíma, vindhviðasnarpur, fagraorðaþoka, steinþögull, draumljóð, ostfangin, minnihlutahópastress, spenntóttabið, eftirmorgunskvíði, þægindablaðra, sólarleyfi, neyslufall, lýðræðishetjuskapur, hendingarelskhugi, snortinleiki, tárahik, kvárföt og glápamaður. 

Rithöfundur les upp

höfundur les upp texta

höfundur les upp

höfundur les upp

Meðal þeirra sem kynntu sín eigin frumsömdu orð voru Bára Halldórsdóttir, Francesca Cricelli, Hannah Rós Sigurðardóttir Tobin, Jakub Stachowiak, Mao Alheimsdóttir og Sólveig Ásta Sigurðardóttir. Hluti þeirra höfðu stillt rýminu upp áður svo það minnti á íslenska skólastofu með tússtöflunni. Þau stilltu einnig upp ákveðinni plöntu sem oft var ein síns liðs í skólastofum í Póllandi á árum áður. Þátttakendum og viðstöddum var boðið að búa til eigin orði á gula minnismiða og bæta við töfluna sem stóð eins og óskrifað hvítt blað í byrjun viðburðara. Meðal þeirra sem slógust í hóp þeirra voru Vaida Bražiūnaitė, Momo Hayashi, Hafsteinn auk annarra sem völdu að kynna sig ekki með nafni.  

Hægt er að hlusta á upplesturinn frá 16. nóvember 2023 á hlaðvarpsrás Borgarbókasafnsins: Búum til ný íslensk orð  

Form upplestursins var mismunandi milli þátttakenda. Mao byrjaði á að setja sig í kennarastellingar og fá fólk í salnum til að taka þátt í „kóræfingu“ þar sem viðstaddir sögðu orð hennar endurtekið í takt. Jakub fór með fjögur ljóð sem skýrðu hans orð. Hannah Rós flutti frásögn af lífi sem hana vantaði orð til að lýsa með jákvæðum hætti. Francesca og Sólveig Ásta kynntu sín orð með hefðbundinni orðabókarskilgreiningu á meðan Bára blandaði saman kunnuglegum línum úr dægurlagi og tilsvörum úr hversdagslífinu til að miðla merkingu hugtaksins. Bæði starfsfólk sem og gestir sprengdu þægindablöðruna sína og sýndu lýðræðishetjuskap með því að flytja sín orð í opnu almenningsrými bókasafnsins. Einn flytjandi kallaði eftir því að fá viðstadda til að hjálpa sér í að búa til nýtt orð yfir einstakling sem býr á Íslandi en fæddist í öðru landi. Henni þótti útlendingur of neikvætt (hvar áttu að vera, úti?), en innflytjandi orð sem að lýsti ástandi sem gæti ekki varað ævina á enda. Stungið var upp á að búa til nýtt orð í sama anda og tvítyngi. Hvernig væri að nota til dæmis tvíheima eða tvíbúi

Fólk á viðburði

Í miðlun viðburðarins lagði Borgarbókasafnið áherslu á að samfélagið tekur stöðugum breytingum og til þess að við getum miðlað og tjáð okkur um nýjan og síbreytilegan raunveruleika þarf tungumálið að þróast í takt við samfélagið. Dagur íslenskrar tungu var nýttur sem tækifæri til að fá fólk til að skapa saman tungumálið, sem samfélagið á sameiginlegt, rétt eins og almenningsbókasöfnin. Verkefnastjóri borgaralegrar þátttöku kynnti hugmyndina að baki viðburðinum í samtali við Þorgeir Ástvaldsson um stöðu íslenskrar tungu fyrir útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 15. nóvember 2023 : Leitað að nýjum íslenskum orðum 

Viðburðurinn er framlag Borgarbókasafnsins til verkefnisins Vettvangur samsköpunar þar sem bókasöfn og menningarstofnanir um allt land hafa gert tilraunir með að umbreyta rými í stað þar sem við mælum okkur mót, mætumst og rekumst á fólk fyrir tilviljun. Á nýju ári verða reglulegir viðburðir þar sem við söfnum nýjum orðum í tengslum við tiltekin málefni. Í kjölfar viðburðarins var sett upp vefsíða þar sem hægt er að skrá ný orð í samskapaða íslenska orðabók

Kynning á viðburði

Nánari upplýsingar veitir:

Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 20. desember, 2023 12:14