Dót í skóinn og fínir pakkar á söfnunum

Innpökkunarstöð í Gerðubergi

Ertu búin að kaupa jólagjafirnar en átt eftir að pakka þeim inn? Kíktu með þær í Fríbúðina í Gerðubergi. Við erum með allskonar fallegt og umhverfisvænt til að gera jólapakkana enn dýrmætari. Innpökkunarstöðin er opin frá og með 10. desember - allur efniviður á staðnum.
 

Hjálparhelluborð fyrir jólasveina

Á Borgarbókasafninu í Kringlunni og Gerðubergi má finna svokölluð „hjálparhelluborð“ með allskyns fínu dóti sem jólasveinar geta sótt og sett í skóinn hjá öllum þægu börnunum í Reykjavík. 

Við tökum því gjarnan á móti gömlu og nýju dóti s.s. litlum púslum, pez köllum, litlum bílum, böngsum eða hvað sem er - svo lengi sem það er hreint og í heilu lagi. Það gæti verið góð samverustund foreldra og barna að fara saman í gegnum dótakassana og ákveða hverju skal halda og hvað má gefa á hjálparhelluborð jólasveinanna. 

Öll græða - börnin sem gefa dótið sitt og læra um hringrásarhagkerfið og jólasveinarnir sem fá gefins dót til að gefa áfram. Minna rusl endar í náttúrunni. 


Bækur í skóinn handa litlum bókaormum

Við minnum sveinkana líka á að þeir geta fengið lánaðar bækur á bókasafninu til að setja í skóinn. Þeir verða bara að muna að láta fylgja með miða þar sem þeir biðja börnin um að skila bókunum fyrir sig. Það er mjög mikilvægt því jólasveinarnir eru ekki með tölvur og netfang og því ekki hægt að senda þeim áminningartölvupóst um skiladag. 

Nokkrar fleiri umhverfisvænar tillögur að skógjöfum fyrir bræðurna þrettán: 
- Piparkökuhús til að setja saman og skreyta
- Vasaljós til að fara með í ævintýralega kvöldgöngu t.d. Í Öskjuhlíðinni
- Kakóbréf til að hafa heitan drykk með í brúsa í kvöldgönguna
- Gömul (barna) tímarit og skæri til að klippa út og föndra úr
- Gjafabréf fyrir kakóbolla á kaffihúsi
- Bókasafnskort (ókeypis fyrir börn)