Borgarbókasafnið Klébergi opnar | Bókakostur bókabílsins fær nýtt hlutverk

Bókabíllinn Höfðingi var lagður af í lok árs 2022 og er hans sárt saknað af mörgum. Fastagestir bókabílsins sem eiga erfitt með að komast á næsta bókasafn, notfæra sér mörg heimsendingarþjónustuna Bókin heim, en aðrir notendur bílsins venja nú komur sínar á sitt hverfissafn. Borgarbókasafnið starfrækir nú átta söfn um alla Reykjavík.

Nýjasta bókasafnið okkar, Borgarbókasafnið Klébergi, er samrekið skóla- og almenningsbókasafn í Klébergsskóla á Kjalarnesi, en stærsti hluti safnskostsins eru þær bækur sem voru í bókabílnum, safnkostur sem var uppfærður reglulega og er mjög sambærilegur öðrum söfnum Borgarbókasafnsins.

Strax eftir áramót hófst vinna við að undirbúa safnkostinn, teikna upp skipulag hins nýja safns og kaupa inn og endurnýta tæknibúnað og húsgögn. Keyptar voru inn nýjar bækur og fengin eintök frá öðrum söfnum, en Klébergsskóli átti þó nokkuð af bókum. Það eru alls um 5000 bækur og tímarit í Klébergi. Sjálfsafgreiðsluvél og upplýsingaskjár úr Borgarbókasafninu Úlfarsárdal voru færð yfir á nýja safnið, sem og eitthvað af húsgögnunum. Hillur voru keyptar inn en einnig voru notaðar hillur úr Borgarbókasafninu í Spöng. Þannig var reynt eftir bestu getu vinna í anda Grænu skrefana með endurvinnslu að leiðarljósi og með sem minnstum kostnaði. 

Kennarar og starfsfólk Klébergsskóla hafa aðgang að bókasafninu utan opnunartíma og geta sótt þangað safnkost með nemendum eða notað rýmið á þann hátt sem þeim sýnist. Við hlökkum til að sjá þetta nýja safn okkar blómstra og vaxa um ókomna tíð.

Verið hjartanlega velkomin á opnun safnsins 25. maí kl. 16

Opnunartímar

Borgarbókasafnið Klébergi
Klébergsskóla
Kollagrund 2-6

Opið almenningi og nemendum
Mánudaga og fimmtudaga.
Kl. 14:00 – 18:00

Opið nemendum
Þriðjudaga og miðvikudaga.
Kl. 08:00 - 12:30
 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 1. júní, 2023 11:22