TÖFRAFJALLIÐ | Alþjóðlegur dagur þýðenda

Í tilefni af Alþjóðlegum degi þýðenda og túlka - sem kenndur er við heilagan Híerónýmus þann 30. september, þá birtir Borgarbókasafnið brot úr óútgefnum þýðingum, verk í vinnslu, með góðfúslegu leyfi þýðandanna Gauta Kristmannssonar og Magnúsar Sigurðssonar. Það eru þýðingar úr verkum eftir rithöfundinn Thomas Mann og ljóðskáldið Louise Glück, en báðir höfundar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum, Mann árið 1929 og Glück árið 2020.

Gauti Kristmannsson, þýðandi og prófessor í þýðingarfræðum vinnur að þýðingu sinni á Töfrafjallinu (Der Zauberberg, 1924) eftir Thomas Mann. Töfrafjallsaðdáendur eru þegar farnir að hlakka til þessara stórtíðinda, en þýðingin er væntanleg á næsta ári, útgefin af Þýðingarsetri Háskóla Íslands.
 

DER ZAUBERBERG / TÖFRAFJALLIÐ

„Ég reyki jú aldrei,“ svaraði Joachim. „Því skyldi ég reykja hér?“

„Þetta skil ég ekki!“ sagði Hans Castorp. „Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur látið það vera að reykja – hann missir, svo að segja, af besta hluta lífsins eða í það minnsta af framúrskarandi nautn! Ég hlakka til þegar ég vakna að geta reykt yfir daginn, og þegar ég borða hlakka ég líka til, já, það mætti segja að ég borði eiginlega bara til þess að geta reykt, þótt ég ýki auðvitað aðeins. En einn dagur án tóbaks væri fyrir mér hátindur tómleikans, algjörlega ömurlegur og óspennandi, og ef ég þyrfti að segja við mig að morgni: Í dag færðu ekkert að reykja – ég hefði líkast til ekki kraft til að fara á fætur, í alvöru, ég lægi áfram í rúminu. Sjáðu til: Maður er með vel brennandi vindil – vitanlega má ekki koma loft með eða vera erfitt að sjúga, það er ofboðslega ergilegt – það sem ég á við: Sé maður með góðan vindil er manni eiginlega borgið, það getur bókstaflega ekkert komið fyrir mann. Þetta er nákvæmlega eins og þegar maður liggur á ströndinni, þá liggur maður bara á ströndinni, ekki satt, og þarfnast einskis annars, hvorki vinnu né skemmtunar ... Guði sé lof reykja menn um allan heim, eftir því sem ég best veit er það ekki óþekkt á neinum stað sem maður gæti lent á. Meira að segja pólfarar taka með sér góðar birgðir í svaðilfarir sínar og það hefur alla tíð höfðað til mín frá því ég las það. Því manni getur liðið mjög illa – gefum okkur að mér liði ömurlega: En svo lengi sem ég hefði vindilinn minn héldi ég það út, svo mikið veit ég, hann kæmi mér yfir erfiðasta hjallann.“   - Þýðing: Gauti Kristmannsson.

 

Sjá þýðingu Magnúsar Sigurðssonar á  ljóðum eftir Louise Glück hér.

Töfrafjallið er til á þýsku og ensku á safninu. Hér að neðan gefur einnig að líta þýðingar frá Gauta Kristmannssyni, þar á meðal ljóð eftir Manfred Peter Hein, Að jaðri heims: ljóð 2008-2010, ásamt fleiri ritum.

Flokkur
Merki
UppfærtLaugardagur, 2. október, 2021 10:49
Materials