Louise Glück | Alþjóðlegur dagur þýðenda
Í tilefni af Alþjóðlegum degi þýðenda og túlka - sem kenndur er við heilagan Híerónýmus þann 30. september, þá birtir Borgarbókasafnið brot úr óútgefnum þýðingum, verk í vinnslu, með góðfúslegu leyfi þýðandanna Gauta Kristmannsonar og Magnúsar Sigurðssonar. Það eru þýðingar úr verkum eftir þýska rithöfundinn Thomas Mann og bandaríska ljóðskáldið Louise Glück, en báðir höfundar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum, Mann árið 1929 og Glück árið 2020.
Magnús Sigurðsson, skáld og þýðandi, gaf meðal annars frá sér úrval þýðinga á ljóðum eftir Emily Dickinson, Berhöfða líf, árið 2020, sem telst til mikilla tíðinda. Magnús vann þýðingar á völdum ljóðum eftir Louise Glück úr ýmsum verkum hennar, þar á meðal úr verkinu The Wild Iris frá árinu 1992. En samanlagt hafa komið 13 ljóðasöfn frá henni. Við vonum að framtíðin færi okkur útgáfu á ljóðaúrvali á íslensku eftir þessa einstöku skáldkonu. Hér eru fjögur ljóð eftir Louise Glück í áður óbirtri íslenskri þýðingu.
Óttusöngur
Ekki bara sólin heldur sjálf
jörðin skín, hvítir logar
hlaupa fram af tindum glysgjarnra fjalla
og í morgunskímunni titrar
tíbrá yfir sléttum vegi: er þetta
bara fyrir okkur, til að vekja
viðbrögð, eða hreyfir það líka
við þér, ófær um
að láta einsog ekkert sé
í nærveru jarðar— Ég skammast mín
fyrir það sem ég hélt að þú værir,
fjarri okkur, og við
tilraunadýr þín: það er
biturt hlutskipti að vera
aflóga skepna,
biturt hlutskipti. Kæri vinur,
kæri uppnumdi förunautur, hvað
kemur þér mest á óvart í skynjun þinni,
bjarmi jarðar eða þín eigin gleði?
Fyrir mig er það alltaf
gleðin sem undrar.
Frávikið
Hann kviknar hljóðlega
í vissum stúlkubörnum:
óttinn við dauðann, og birtist sem
alúð við hungur,
af því að líkami konunnar
er gröf: hann lætur bjóða sér
hvað sem er. Ég man
þegar ég lá uppi í rúmi á kvöldin
og snerti þessi mjúku, fráleitu brjóst,
snerti, fimmtán ára gömul,
afskiptasamt hold
sem ég hugðist fórna
til að veita limum mínum frelsi
frá blómgun og blekkingum: Mér leið þá
einsog núna, raðandi saman þessum orðum—
að baki er sama fullkomnunarþörf,
og dauðinn bara aukaafurð hennar.
Viðhöfn
Mér fannst þistilhjörtu ekki lengur góð þegar ég hætti að borða
smjör. Fenníka
fannst mér aldrei góð.
Eitt sem ég hef alltaf hatað
við þig: ég hata að þú viljir ekki fá
fólk í heimsókn. Flaubert
átti fleiri vini og Flaubert
var einbúi.
Flaubert var klikkaður: hann bjó
með mömmu sinni.
Að búa með þér er einsog að búa
á heimavist:
mánudaga kjúklingur, þriðjudaga fiskur.
Ég á djúpstæð vinatengsl.
Ég á vinatengsl
við aðra einbúa.
Þarftu að kalla það stífni?
Geturðu ekki kallað það smekk
fyrir viðhöfn? Eða er hungri þínu eftir fegurð
alfarið fullnægt af þinni eigin persónu?
Eitt í viðbót: nefndu mér eina aðra manneskju
sem á ekki húsgögn.
Það er fiskur á þriðjudögum
af því að hann er ferskur á þriðjudögum. Ef ég gæti keyrt
gæti hann verið hvaða dag sem er.
Fyrst þú hættir ekki að tala um
fordæmi, hvað með
Stevens. Stevens
ferðaðist aldrei; sem þýðir ekki
líf án unaðssemda.
Unaðssemdir kannski en ekki
gleði. Þegar þú eldar þistilhjörtu,
skaltu elda þau handa þér.
Þakklæti
Ekki halda að ég sé ekki þakklát fyrir þá litlu
væntumþykju sem þú sýnir mér.
Ég kann vel að meta litla væntumþykju.
Satt að segja tek ég hana fram yfir þá
fyrirferðarmeiri, sem hefur sífelldar gætur á manni,
einsog risavaxið dýr á gólfteppinu,
þartil líf manns er skroppið saman í ekkert
nema vakna dag eftir dag
upp við vegg, og sólargeislarnir falla skærir
á skögultennur þess.
Þýðing: Magnús Sigurðsson
Sjá textabrot úr þýðingu Gauta Kristmannssonar á Töfrafjallinu hér.
Hér að neðan má sjá verk sem til eru á safninu eftir Louise Glück og einnig ljóðaþýðingar eftir Magnús Sigurðsson; Berhöfða líf eftir Emily Dickinson, Steingerð vængjapör eftir Tor Ulven, Bláar hýasintur eftir Adelaide Crapsey.