Saga Jen Zhang

Spilum og spjöllum | Frábær leið til að læra íslensku og kynnast nýju fólki

Saga Jen Zhang er fædd og uppalin í Kína þar sem hún starfaði sem grunnskólakennari. Hún kom til Íslands árið 2011 í leit að ævintýri og segja má að henni hafi sannarlega orðið að ósk sinni en hún býr hér enn og starfar nú sem leiðsögumaður. Starfið líkar henni afar vel enda sameinar það samveru með fólki og ferðalög um landið sem henni þykir afar fagurt. 

Góð leið til að kynnast fólki
Saga hefur verið tíður gestur á Spilum og spjöllum en það er verkefnaröð Borgarbókasafnsins þar sem þau, Hildur Loftsdóttir, kennari, blaðamaður og rithöfundur og Sigurður Hermannsson málvísindamaður, kenna byrjendum og lengra komnum íslensku á fjölbreyttan hátt, svo sem í gegnum borðspil og krossgátur.

 „Þetta er algjörlega ný leið fyrir mig til að læra tungumál - þetta er mjög góð leið, það er ekki nauðsynlegt að hugsa mikið um tungumálið, meira um endastöðina. Þetta er ekki bara gott tækifæri til að læra íslensku heldur líka til að kynnast nýju fólki. Svo eru kennararnir frábærir.“ 

Aðspurð hvort það sé mikilvægt að hafa öruggan stað (e.safe space) eins og bókasafnið til að læra og æfa sig í íslensku segir hún svo vera.

„Já þetta er mjög mikilvægt fyrir fólkið sem er að læra tungumálið, þetta er eins og lítið félag eða samkomustöð, fólk kemur saman og lærir hvert af öðru. Ef ég er heima hjá mér, ein að læra, læri ég ekki eins mikið, les kannski eina litla íslenska sögu en þegar ég er með fólki, þegar við erum saman, þá er mikið fjör. Bókasafnið er besti staðurinn fyrir svona viðburð, þar er fátt fólk á ferli og enginn að trufla okkur, það er rólegt og notalegt.“ 

Saga segist stundum vera feimin við að tala íslensku, svo sem við samstarfsfólk og fleiri.

„Þegar fólk skilur mig ekki vel hætti ég strax, þegar ég er að tala við annað fólk á sama stigi þá er fólk opið og talar eins og það vill. Það gengur mjög vel að þátttakendur eru á mismunandi stigum og frá ólíkum löndum, það skiptir engu máli að sum eru nýkomin til Íslands en önnur hafa búið hér í nokkur ár, við getum öll haft samskipti í Spilum og spjöllum.“

Spilum og spjöllum er í boði þrisvar í mánuði á þremur söfnum Borgarbókasafnsins, Grófinni, Gerðubergi og Spönginni og hefur Saga mætt á öll þrjú söfnin. Hún segir frábært að hafa verkefnið á svo mörgum söfnum þar sem hún búi í Breiðholtinu en vinni í miðbænum og því henti báðar staðsetningarnar henni mjög vel.


Menningarmiðstöð þar sem allt tengist
Margir gestir Borgarbókasafnsins eiga sér uppáhalds safn og segir Saga að þótt hún elski öll bókasöfnin að þá sé Gerðuberg í uppáhaldi.

„Það er svona menningarmiðstöð, gamla fólkið er að prjóna og fara í leikfimi, allt tengist.“

Saga hefur ekki eingöngu nýtt sér íslenskukennslu á Borgarbókasafninu heldur hefur hún einnig sótt fræðslukvöld sem eru reglulega á dagskrá. Hefur hún meðal annars fræðst um heilbrigðismál og listir sem hún segir hafa verið áhugavert og skemmtilegt. 

En hvernig skyldi bókasafnsmenningin vera í Kína?

„Það er mjög mikið af bókasöfnum í Kína en þau eru mest notuð af nemendum sem eru að leita að efni fyrir skólann. Það er ekki mikið um að foreldrar komi með börnin sín á bókasöfn í Kína, fólk leitar frekar að efni á netinu til að spara tíma.“

segir Saga og hvetur fólk sem langar að læra meira til að fara á bókasöfn á Íslandi.

Dagskrá Spilum og spjöllum haustið 2022 má sjá hér