Frá viðburðinum „Ég vild’ ég væri Pamela í Dallas“
Frá viðburðinum „Ég vild’ ég væri Pamela í Dallas“

„Ég vild’ ég væri Pamela í Dallas“

LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.
Læsi á stöðu og baráttu kvenna | Í tilefni af Kvennaári 2025__________________________________________________________

Sunnudaginn 19. október bauð Bókasafn Héraðsbúa til lifandi og fróðlegs viðburðar sem var hluti af verkefninu Læsi á stöðu og baráttu kvenna. Viðburðurinn bar heitið „Ég vild’ ég væri Pamela í Dallas“ – tilvitnun í frægt lag hljómsveitarinnar Dúkkulísanna, sem eiga einmitt rætur sínar að rekja til Egilsstaða.

Gréta Sigurjónsdóttir, gítarleikari Dúkkulísanna, stóð að mestu fyrir skipulagningu viðburðarins og fékk til liðs við sig þrjár tónlistarkonur af Austurlandi: Bergljótu Höllu Kristjánsdóttur og Dagrúnu Drótt Valgarðsdóttur úr hljómsveitinni Without the Balls, auk Ínu Berglindar Guðmundsdóttur, nemanda í Menntaskólanum á Egilsstöðum og upprennandi tónlistarkonu.

Frá viðburðinum „Ég vild’ ég væri Pamela í Dallas“

Gestir fengu að heyra stutt erindi þar sem konurnar sögðu frá ferli sínum og reynslu af því að vera konur í tónlist — allt frá upphafi ferils Dúkkulísanna á níunda áratugnum og fram til dagsins í dag. Þær fléttuðu saman á skemmtilegan hátt frásögn og tónlist, lásu upp texta hver annarrar, fluttu eigin lög og veltu fyrir sér merkingu textanna og hvort finna mætti í þeim skírskotanir í samtímann, tíðarandann og kvennabaráttu með aðstoð áheyrenda. Í hléi var boðið upp á kaffiveitingar þar sem gestum gafst tækifæri á að ræða saman á persónulegri nótum um það sem fram hafði farið, kvennabaráttuna og annað.

Viðburðurinn skapaði huggulega stemningu þar sem sögur, tónar og reynsla kvenna í tónlist á Austurlandi mættust. Skemmtilegar umræður sköpuðust og áheyrendur tóku virkan þátt. Alls tóku um 20 manns þátt í viðburðinum.