Afmælinu fagnað með fjölbreyttum skiptimörkuðum

Ekki er aðeins haldið upp á 100 ára afmæli Borgarbókasafnsins í ár heldur er því einnig fagnað að 60 ár eru liðin frá því að safnið í Sólheimum opnaði í núverandi húsnæði. Í tilefni afmælisins verða haldnir fjölbreyttir skiptimarkaðir á safninu þar sem notendum gefst tækifæri á að koma með flíkur, listmuni og jólaskraut sem þeir eru hættir að nota og taka með sér nýja heim sem aðrir koma með.

„Safnið í Sólheimum er eina húsnæðið okkar af átta, að safninu í Úlfarsárdal frátöldu, sem var byggt sem bókasafn“ segir Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri. „Forveri þess var útibú III að Hlíðarenda við Langholtsveg, opnað 1948, svo það má segja að við séum að halda upp á 75 ára afmæli þess líka. Safnið var þar í nokkra mánuði en fluttist þá í eitt herbergi í Efstasundi og var þar í 15 ár áður en það opnaði í núverandi húsnæði, 4. janúar 1963. Útibú II var á Hofsvallagötunni.“

Lítið og persónulegt

Aðspurð hvað hún telji einkenna safnið segir Guðríður það alla tíð hafa verið barnastarfið og samvinna við íbúana í hverfinu. 

„Hverfið var mjög barnmargt þegar safnið opnaði fyrir 60 árum og undanfarin ár hefur börnum fjölgað aftur mikið í hverfinu. Þetta er mikið hverfissafn, langflestir gestirnir eru búsettir í Laugardalnum og nágrenni en einnig er góður hópur brottfluttra sem heldur tryggð við safnið, fólk sem sleit þar barnsskónum og á þaðan margar góðar minningar.“

Guðríður segir að þótt safnið sé fremur lítið þá hafi það líka sína kosti, fólki finnist notalegt að koma og nándin við starfsfólk er mikil.

„Starfsfólk hefur bryddað upp á allskonar í gegnum tíðina, á tímabili voru bakaðar vöfflur á föstudögum og einnig hefur það farið með bækur heim til fastagesta sem hafa ekki haft tök á að koma á safnið vegna veikinda. Þá tekur það daglega á móti leikskólabörnum úr hverfinu í sögustundir.“

En það er ekki bara aðstaðan og safnkosturinn sem gestir njóta góðs af.

„Við höfum líka nýtt stóru lóðina í kringum safnið, bæði fyrir viðburði en einnig komið okkur upp matjurtagarði þar sem hefur sprottið rabarbari, jarðarber og graslaukur í gegnum tíðina sem gestir hafa notið góðs af.“

Hringrásarhagkerfið í anda safnsins

Sextugsafmæli Borgarbókasafnsins í Sólheimum verður fagnað allt árið með afar umhverfisvænum hætti. 

„Við lögðumst yfir það hvernig ætti að halda upp á afmælið, hvað einkenndi starfsemi safnsins og niðurstaðan var þessi mikla nánd og nánast vináttusamband við notendur, en einnig nýtni. Starfsfólkið hefur meðal annars verið duglegt að fara á gjafamarkaði í leit að bókum og við keyptum einnig einhvern tímann brauðvél á nytjamarkaði hjá kirkjunni. Í anda safnsins í Sólheimum, til að halda gildum þess á lofti, var ákveðið að hafa marga og fjölbreytta skiptimarkaði sem gestir, fólkið í hverfinu, getur sameinast um, þannig græða öll!“

Þegar hafa verið haldnir fræskiptimarkaður og plöntuskiptimarkaður og dagana 15. maí - 8. júní er hægt að skiptast á spilum og púzzlum.  Næst verða haldnir leikfangaskiptimarkaðurfataskiptimarkaður, listaverka-og skrautmunaskiptimarkaður og jólaskrautsskiptimarkaður

„Fræskiptimarkaðurinn fór svolítið hægt af stað en eftir að fólk komst á bragðið hefur það tekið fullan þátt og allt gengið mjög vel. Flest koma með eitthvað með sér, skilja eftir og taka nýtt með sér heim en svo má líka alveg taka með sér þótt ekki sé komið með neitt nýtt á borðið, það er eiginlega alltaf einhver afgangur.“

Drauma framtíðarbókasafnið

En hvernig skyldi Guðríður sjá fyrir sér framtíð Borgarbókasafnsins í Sólheimum, næstu 60 árin eða svo? 

„Draumurinn er að einhverntímann verði byggt ofaná húsið, það stækkað og bætt við fjölnota sal en safnið haldi þó áfram að vera persónulegt hverfissafn eins og það er núna. Einnig væri gaman að nýta útisvæðið  enn meira, jafnvel reisa gróðurhús þar sem vaxa vínber og fleira gott. Hvað verður, verður þó framtíðin að leiða í ljós.“ 

Flokkur
UppfærtMánudagur, 5. júní, 2023 12:02