Garance Merholz

Spilum og spjöllum |  „Svo miklu betri leið til að æfa framburðinn“

„Ég held að það flýti virkilega fyrir því að læra íslenskuna að æfa í þessu þægilega umhverfi því oftast myndi það taka mig mánuði áður en ég væri orðin nógu örugg til að tala nýtt tungumál“ 

segir Garance Merholz frá Frakklandi, fastagestur á Spilum og spjöllum á íslensku, vinsælli viðburðaröð á Borgarbókasafninu.  Spilum og spjöllum er haldið þrisvar í mánuði á þremur mismunandi söfnum, í Grófinni, Gerðubergi og Spönginni. Þátttaka er ókeypis og öllum opin, óháð íslenskukunnáttu - engin skráning, bara mæta. 

Gaman að æfa sig með öðrum 
Aðspurð um stærstu áskoranirnar við að læra íslensku segir Garance að sem algjör byrjandi sé allt tengt tungumálinu henni erfitt.

„Og flutningarnir hingað kostuðu mig mikið svo í augnablikinu hef ég ekki efni á því að kaupa mér íslenskutíma. Ég hef saknað þess mikið að hafa ekki fólk til að æfa mig með, þess vegna er Spilum og spjöllum fullkomið!“

Borðspil góðir ísbrjótar 
Kennararnir á viðburðunum hafa áralanga reynslu í að kenna íslensku sem annað mál.  Til að brjóta ísinn notast þeir fjölbreytt borðspil sem hefur gefist vel til að auka orðaforðann og losa um málbein gesta. 

„Ég hef mjög gaman af afslappaðri og fjörugri stemningunni, þótt við séum aðallega að spila einföld spil, sem henta jafnvel ungum börnum til að læra orð, þá gera leiðbeinendurnir það alltaf á skemmtilegan hátt.

Garance Merholz
Óhræddari við að tala málið
Garance segir Spilum og spjöllum ólíkt annarri tungumálakennslu sem hún hefur prófað. 

„Í fyrsta lagi af því að þetta er staðkennsla sem er mun betra en netnámskeið þegar kemur að því að læra orðaforða og orðasambönd en einnig því þetta er mun frjálslegra en annað tungumálanám sem ég hef prófað, sem gerir það að verkum að ég er mun óhræddari við að tala, virkilega æfa tungumálið og bera upp helling af spurningum.“ 

Langar að mæta á alla viðburðina 
Garance hefur þegar mætt á Spilum og spjöllum á öllum þeim þremur söfnum þar sem það er í boði.

„Þetta er virkilega skemmtilegt, þessi samsetning - að spila og spjalla, sem gerir það að verkum að mig langar að mæta í hvert skipti, ólíkt formlegum kennslustundum þar sem ég á það til að skrópa í því tilfinningin vill verða að það sé of mikil skylda og leiðinlegt.“

Bókasafnið í Spönginni er uppáhalds safn Garance, með dagsbirtunni sem flæðir inn um stóru glugganna og góðri stemningu en henni finnst líka notalegt að fara í Grófina því þar kemst hún í gott úrval bóka á öðrum tungumálum en íslensku. Þess má geta að í Gerðubergi er einnig gott safn bóka á fjölmörgum tungumálum. 

Dagskrá Spilum og spjöllum haustið 2022 má sjá hér.