Týndi hellirinn eftir Val Vestan
Týndi hellirinn eftir Val Vestan var einn fyrsti íslenski reyfarinn

Upphaf íslensku glæpasögunnar

Glæpasögur virðast líklegar til að verða mest seldu (og mest lánuðu) íslensku bækurnar í ár eins og undanfarin ár. En þótt spennusögur hafi raunar alltaf átt uppá pallborðið hjá þjóðinni áttu íslenskir reyfarar lengi fremur erfitt uppdráttar. Fyrir 20 árum var íslensk glæpasöguhefð ekki svipur hjá sjón og þótt stöku höfundur gæfi út einn og einn reyfara fannst mörgum tilhugsunin um alvöru glæpasögu sem gerðist á Íslandi í besta falli hlægileg. Þótt erfitt sé að negla niður hvenær umbreytingin varð má þó miða við aldamótin 2000 þegar Arnaldur Indriðason sendi frá sér metsölubókina Mýrina

Þremur árum áður, árið 1997, sendu raunar þrír íslenskir höfundar frá sér glæpasögu; þau Stella Blómkvist, Árni Þórarinsson og Arnaldur Indriðason, með Morðið í stjórnarráðinu, Nóttin hefur þúsund augu og Syni duftsins. Bækur þeirra urðu ekki metsölubækur en þau héldu hins vegar öll áfram að skrifa glæpasögur og var þar með hálfur sigur unninn. Á næstu árum má segja að reyfara-menning hafi náð fótfestu á höfuðborgarsvæðinu og raunar um land allt til að mynda með glæpasagnakvöldum t.d. á Súfistanum og Grand Rokk. Í dag eru íslenskar glæpasögur langt frá því að vera afmarkaður menningarkimi heldur viðurkennd bókmenntagrein sem flestir þekkja og lesa.

En hvenær var fyrsta íslenska glæpasagan gefin út og hver var höfundur hennar? Hér má að sjálfsögðu toga og teygja reyfarahugtakið í ýmsar áttir og til eru þeir sem telja að eins mætti flokka Íslendingasögurnar sem glæpasögur. Við göngum nú ekki svo langt á bókasafninu þótt vissulega sé enginn skortur á morðum og hinum ýmsu glæpum í þjóðararfinum. Á upphafsárum glæpasögunnar má sjá að höfundar leita gjarnan í bresku og bandarísku hefðina – frumraun Íslendinga í þessum efnum var sennilega smásagan „Íslenskur Sherlock Holmes“ eftir Vestur-Íslendinginn Jóhann Magnús Bjarnason og má sennilega ráða af titlinum hvaðan innblásturinn kom. Fyrsta glæpasagan í fullri lengd hefur hins vegar löngum verið talin Húsið við Norðurá eftir Einar Skálaglam (höfundarnafn Guðbrands Jónssonar) sem kom út árið 1926 en sá sem leysir gátuna þar starfaði áður sem spæjari í Bandaríkjunum. Árið 1932 kom út í tveimur bindum glæpasagan Leyndardómar Reykjavíkur eftir Valentínus (höfundarnafn Steindórs Sigurðssonar prentara) en þar takast á útsendari alþjóðlegs glæpahrings og meistaraspæjari sem kallast Ránfuglinn. Árið 1939 birtist svo á prenti bókin Alt í lagi í Reykjavík eftir Ólaf við Faxafen, sem var höfundarnafn stjórnmálamannsins Ólafs Friðrikssonar. Alt í lagi í Reykjavík var lengi frægasta íslenska glæpasagan og sú fyrsta sem fékk gagnrýni í blöðum og tímaritum, bókin státar einnig af því að aðalsöguhetjan er kona en þær voru ekki margar í frumbernsku glæpasögunnar. Valur Vestan (sem var dulnefni Steingríms Sigfússonar) á svo heiðurinn af fyrstu glæpasagna-seríunni með þríleik sínum um áhugaleynilögreglumanninn Krumma, en um hann komu út bækurnar Týndi hellirinn (1948), Flóttinn frá París (1949) og Rafmagnsmorðið (1950). Það er eftirtektarvert að í flestum þessara bóka frá sokkabandsárum íslenska reyfarans voru glæpamennirnir erlendir (þótt samtímafréttir virðist ekki styðja þá skáldlegu sýn af þjóðinni) og það er ekki fyrr undir aldamótin 2000 sem við eignumst almennilega stétt íslenskra glæpamanna. Af þessu má sjá að saga íslenskarar glæpasagnaritunnar er ekki endilega stutt en kannski fremur rysjótt þar til kemur fram á þessa öld, en þá tekur hún heldur betur við sér. Fyrir eldheita glæpasagnaunnendur má benda á að margar af þeim sem teljast til fyrstu íslensku glæpasagnanna eru aðgengilegar á Borgarbókasafninu – og svo auðvitað allar hinar líka. Hér má sjá lista yfir nokkrar nýjar glæpasögur sem og aldursforsetana sem nefndir eru hér að ofan:

Sunnudagur 22. desember 2019
Flokkur
Materials