
Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fjórtán verk, frá níu málsvæðum, eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025. Tvær skáldsögur eru tilnefndar fyrir hönd Íslands: Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl og Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur. Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin 21. október.
Um Armeló segir dómnefnd meðal annars: „Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíkum sjónarhornum mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.“
og um Náttúrulögmálin segir m.a.: „Í skáldsögu Eiríks er djarflega tekist á við samhengi og rök tilverunnar. Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.“
Einnig eru tilnefnd:
Danmörk:
Madame Nielsen: Dødebogsblade, dagbókarskáldsaga.
Úr umsögn dómnefndar: „Höfundur Dødebogsblade steig fyrst fram á ritvöllinn árið 1997 undir sínu borgaralega nafni, Claus Beck-Nielsen. Árið 2001 lýsti hann sig látinn og sviðsetti eigin útför árið 2010. Síðan hefur þessi höfundur gefið út bækur undir nöfnunum Das Beckwerk, Helge Bille, Nielsen, undir nafnleysi og í fyrsta sinn sem Madame Nielsen árið 2014. Mörk sjálfsævisögu og skáldskapar eru leyst upp í höfundarverki þessa umbreytingameistara. Upplausnin sem þema birtist ekki síst í Dødebogsblade sem er hápunktur á ferli höfundarins.“
Til gamans má geta að Madame Nielsen var gestur bókmenntahátíðarinnar Queer Situations í ágúst á síðasta ári og af því tilefni er fjallað um hana í nýjasta tölublaði Tímarits Máls og menningar.
Thomas Boberg: Insula, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Skáldsagan stillir hinu nálæga upp andspænis því veraldarvana. Í henni er lýst útópískri draumsýn um einfaldara líf á landsbyggðinni en á sama tíma fangar hún, gegnum samtöl við soninn Hugo, hina naífu en jafnframt ljóðrænu heimssýn barnsins. Friðlaus prósi fléttast saman við munnmæli eyjunnar. Insula er stúdía í hinni mannlegu hringrás og lítið meistaraverk í norrænum bókmenntum síðari ára.“
Finnland:
Anu Kaaja: Rusetti, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Rusetti („Slaufan“) er listavel skrifuð bók sem líkja mætti við klippimynd eða þrískipta altaristöflu. Sögumaðurinn er nautnaseggur sem býður lesandanum í skoðunarferð um evrópskan menningararf í leit að andlegum, líkamlegum og vitsmunalegum unaði á söfnum, teknóklúbbum og kaffihúsum. Frásögnin hefur þrjá mismunandi stíla: sjálfsöguleg skrif, töfraraunsæi og listrænan esseyjustíl. Í henni fléttast saman léttleiki og alvara, unaður og þjáning, hugsun og leikur.“
Milja Sarkola: Min psykiater, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Tímar sögumannsins hjá geðlækninum eru kjarni frásagnarinnar en stærsti og dramatískasti hluti verksins á sér stað í hugarórum hennar um hann. Aftur og aftur sleppa hugsanir hennar út úr stofu læknisins og leiðast út í ítarlegan hugarburð um það hvernig hann sé heima hjá sér, hvernig konan hans sé, hvernig þau séu saman, hvernig þau borði kvöldmat með vinahjónunum Toffe og Bettinu. Á munúðarfullan hátt ímyndar hún sér samtöl þeirra um list, hvernig þau útbúi sósu með fínu hreindýrasteikinni og setji fram athugasemdir um sinn eigin borgaralega lífsstíl í hæfilega mikilli sjálfshæðni eða vörn.“
Færeyjar:
Vónbjørt Vang: Svørt orkidé, ljóðabók
Úr umsögn dómnefndar: „Svørt orkidé („Svört orkídea“) er þriðja ljóðabók Vang og hennar sterkasta bók hingað til. Þema verksins er sorg og áhyggjur móður vegna barns sem vex úr grasi og fer sínar eigin leiðir – og er hugsanlega að leiðast inn á ranga braut. Sterkust er tilfinningin fyrir undirliggjandi kvíða og vanmætti yfir að hafa tapað stjórninni og tengslunum, yfir tengingu móður og barns sem breytist og dofnar þegar barnið eldist. “
Grænland:
Lisathe Møller: Qaamarngup taartullu akisugunneri, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Skáldsagan Qaamarngup taartullu akisugunneri („Leiftur ljóss og myrkurs“) eftir Lisathe Møller er grípandi verk sem vekur lesandann til umhugsunar. Gegnum aðalpersónurnar tvær, þau Siiva og Ane, fæst skáldsagan við félagsleg og pólitísk viðfangsefni sem eru mikilvæg fyrir Grænland og þróun menntakerfisins þar út frá spennu milli hefðbundinna og nútímalegra lífshátta og sökum þeirra tungumálatengdu áskorana sem yngri kynslóðir Grænlands standa frammi fyrir. Þannig veitir höfundur glögga innsýn í þær menningarlegu og formgerðarlegu breytingar sem móta hina grænlensku sjálfsmynd í dag.“
Noregur:
Johan Harstad: Under brosteinen, stranden!, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Under brosteinen, stranden! („Undir götusteini, ströndin!“) er hápunktur á einstöku höfundarverki Johans Harstad, skáldsaga upp á tæpar þúsund síður með flóði af alvarlegri og kostulegri þekkingu, kímni, fróðleiksfýsi, gríðarlegu magni af bókmenntalegri tilraunamennsku og aðdáunarverðum leiklistarfræðilegum útleggingum. Mögulegt leiðarstef skáldsögunnar er hin undursamlega uppgötvun hlutar sem er í laginu eins og götusteinn og sem á að gera þeim sem snerta hann kleift að upplifa heilt líf á aðeins sjö mínútum.“
Arne Lygre: I vårt sted, leikrit
Úr umsögn dómnefndar: „Leikrit um vináttu þriggja einmana einstaklinga sem hafa hver um sig ólíka og einstaka reynslu að baki. Við kynnumst þremur konum: Astrid, Söru og Evu. Tvær kvennanna hafa þekkst lengi. Önnur þeirra hefur haldið sig til hlés í dálítinn tíma og á meðan hefur ný vinkona komið til sögunnar og er á góðri leið með að taka hennar sess. Eftir því sem leikritinu vindur fram verða breytingar á valdajafnvægi milli kvennanna þriggja. Við fylgjumst með því hvernig tilviljanakenndir fundir fléttast saman, knúnir áfram af lönguninni til að forðast einsemd en einnig af minningum um gamlan missi, af óttanum við það að glata annarri manneskju eða að einhver komi í manns stað, og af metingi og öfundsýki. “
Samíska málsvæðið
Jalvvi Niillas Holmberg: Goatnelle, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Aðalpersóna skáldsögunnar, Elle Hallala, eða listakonan Halla Helle, er á meðal virtustu sjálflærðu listamanna í Finnlandi. Hún tapar lífslönguninni, gefur listalífið upp á bátinn og snýr aftur á heimaslóðirnar í Ohcejohka til að reyna að ná áttum á ný. Þegar Elle er unglingur fer hún að koma sér hjá því af ýmsum ástæðum að reka hreindýrin, forðast að sinna kærum föður sínum og slítur tengsl við móður sína. Smátt og smátt safnast upp þær mörgu sorgir sem hún hefur aldrei unnið úr. Höfundurinn bregður upp mynd af sársauka og lífshlaupi manneskju sem glímir við afleiðingar áfalla, því hvernig henni tekst smám saman að létta eigin byrðar og bæta líðan sína.“
Svíþjóð
Lotta Lotass: Rubicon / Issos / Troja, ljóðabók
Úr umsögn dómnefndar: „Í Rubicon / Issos / Troja er lesandinn fluttur á sögulega staði og tímabil sem hafa orðið að nánast óraunverulegum ævintýrum fyrir tilstilli sögubóka og fjölmargra skáldverka sem byggjast á þeim: við lesum um morguninn sem Sesar þarf að fara yfir Rúbíkonfljót, orrustu Alexanders gegn Persunum við Issus og svo Trójustríðið sem átti sér kannski stað og kannski ekki. Steinarnir í lok bókarinnar virðast mikilvægari en hefð sagnaritara sem elskuðu orrustur. Jafnvel stríðsherrar verða öllum gleymdir á endanum.“
Andrzej Tichý: Händelseboken, skáldsaga
Úr umsögn dómnefndar: „Lesandinn er dreginn inn í sjö hundruð síðna langa þeytivindu af áköfum og áleitnum texta sem ómögulegt er að leggja frá sér. Formið flakkar á milli lengri frásagna, barnalegra ritgerðadraga, einræðna, stuttra brota og raunverulegra eða skáldaðra tilvitnana og hnitmiðaðra setninga. Hversdagurinn rennur saman við töfraraunsæi, hið lágkúrulega við hið djúpa, harmleikur við frelsandi kímni.“
Álandseyjar:
Carina Karlsson: Marconirummet, ljóðabók
Úr umsögn dómnefndar: „Titill bókarinnar vísar til ítalska uppfinningamannsins Guglielmo Marconi, sem fann upp fyrstu þráðlausu skeytasendana og hafði því mikil áhrif á skipaferðir um heimshöfin. Í gluggalausum, hljóðeinangruðum rýmum var komið á sambandi við heiminn fyrir utan skipið. Skilaboð slegin inn með morskóða urðu líflína fyrir skipverjana – en líka fyrir fjölskyldur þeirra í fjarlægri heimabyggð.“
Nánari upplýsingar um bækurnar og höfundana má finna á vefsíðu Norræns samstarfs.