Máttug list frá Grænlandi

Grænlenski rithöfundurinn Niviaq Korneliussen hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2021 fyrir skáldsöguna Naasuliardarpi (Blomsterdalen: roman/Blómadalurinn). Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.:

 
„Bókin fjallar um ást, vináttu og um það að tilheyra samfélagi sem glímir við arfleifð nýlendustefnu. Hér er á ferð afar hjartnæmt verk sem veitir innsýn í tilveru Grænlendinga í dag og þau áföll sem enn setja mark sitt á daglegt líf þeirra. Frásögnin er falleg, en einnig sársaukafull og óvægin. Dauði fyrir eigin hendi fylgir aðalpersónunni ungu frá upphafi til söguloka, en þrátt fyrir allt myrkrið liggja þræðir ástar gegnum textann og geisla frá sér birtu og blíðu. Stíllinn er blátt áfram og þrunginn afar nákvæmri skynjun […]. Þetta er máttug list sem mun standast tímans tönn.“

 

Sjá nánari umfjöllun: Norrænt samstarf.


Fjórtán norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 og er þetta í fyrsta sinn sem grænlenskur höfundur hlýtur verðlaunin. Blómadalurinn er önnur bók Niviaq Korneliussen sem er fædd árið 1990 í Nanortalik á Grænlandi. Fyrsta bók hennar Homo sapína vakti athygli fyrir groddalegar en jafnframt hreinskilnar og jafnvel óþægilegar lýsingar og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015. Homo sapína fjallar meðal annars um líf samkynhneigðra kvenna á Grænlandi og var gefin út á grænlensku og í danskri þýðingu höfundar árið 2014 en íslensk þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur kom út árið 2018. Sjá umfjöllun og rýni í skáldsöguna á ruv.is þar sem höfundurinn er sagður reið ung kona sem liggur mikið á hjarta.

Verðlaunabókin Naasuliardarpi/Blomsterdalen fjallar um tíð sjálfsmorð á Grænlandi á djúpan og einlægan hátt í samfélagi þar sem enginn ræðir dauðann. Titill verksins vísar í Blómadalinn í Tasilaq, en þar er kirkjugarður og nafnlausar grafir þaktar bláum, rauðum og bleikum plastblómum.

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 12:35
Materials