Sumarlesning - Leshringurinn Sveigur

Leshringurinn Sveigur | Sumarlesningin

Þær eru ansi öflugar í lestrinum konurnar sem mætt hafa í leshringinn Sveig í vetur. Leshringurinn hefur verið starfræktur í mörg ár í Borgarbókasafninu Spönginni og eins og gengur þá er alltaf einhver endurnýjun í hópnum á meðan sumar hafa verið með alveg frá upphafi.

Lestraráhuginn er mikill og umræðurnar fjörugar þegar hópurinn hittist. Í vetur voru lesnar fjórar bækur af ólíkum toga; Blinda eftir Ragnheiði Gestsdóttur, Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Sænsk gúmmístígvél eftir Henning Mankell. Um þessar bækur spunnust miklar og áhugaverðar umræður og sitt sýndist hverri um söguþráð, persónur og leikendur.

Leshringurinn Sveigur í Borgarbókasafninu Spönginni

Í síðasta leshring vorsins var eindregið óskað eftir því að valdar yrðu fjórar bækur til að glugga í yfir sumarmánuðina þar til hópurinn hittist á ný í september.

Eftirfarandi bækur urðu fyrir valinu:

  • Brot - konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason
  • Systraklukkurnar eftir Lars Mytting
  • Ekki gleyma mér - minningasaga Kristínar Jóhannsdóttur
  • Violeta eftir Isabel Allende

Bækurnar eru að sjálfsögðu allar til á Borgarbókasafninu.

Langar þig að taka þátt í lestrargleðinni næsta haust? Þá er um að gera að hafa samband.

Borgarbókasafnið Spönginni
spongin@borgarbokasafn.is | 411 6230

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 29. maí, 2024 14:12
Materials