Myndhöfundur: Ari H. G. Yates
Myndhöfundur: Ari H. G. Yates

Að finna gleði, sjálfan sig og aðra í skáldskap

Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir var haldin í Gerðubergi þann 5. mars. Þar mátti hlýða á fjóra fyrirlesara fjalla um barnabókmenntir, myndasögur og útgáfu á fjölbreyttum bókum fyrir börn og ungmenni og um eigin hugmyndir og skáldskaparskrif. Ráðstefnan var vel sótt og góð stemmning meðal fólks sem var mætt á laugardagsmorgni með kaffibolla í hönd og fékk sér síðan súpu saman í hádeginu á kaffihúsinu í Gerðubergi.

 

Þema ráðstefnunnar í ár var ALLSKONAR ÖÐRUVÍSI. Sjónum var beint að margbreytileika og hvernig hann birtist í barnabókum í dag. Um mikilvægi þess að tilheyra og eiga heima í skáldskap.

Hilmar Óskarsson var fundarstjóri. Hann sagði meðal annars frá sinni eftirlætis bók: Selur kemur í heimsókn, sem er rík af myndum og er dæmi um bók sem leikur sér með skynjun þar sem texti og myndir tala ekki endilega saman og eru jafnvel í mótsögn, sem hreyfir við móttökuskilyrðum. Hilmar kynnti síðan höfunda dagsins til leiks: Þórunn Rakel Gylfadóttir, Atla Hrafney, Sverrir Norland, Þórdís Gísladóttir.

 

Höfundur að eigin lífi eða aukapersóna í lífi annarra?

Þórunn Rakel Gylfadóttir var fyrst á mælendaskrá. Hún gaf út sína fyrstu bók í fyrra, Akam ég og Annika og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina. Þórunn Rakel fjallað um það að gefa út sína fyrstu bók og upplifun að velgengni hennar, velti fyrir sér hvað það er að vera höfundur. Bók hennar sagði hún vera tvöfalda þroskasögu og hvernig það að skrifa er að gangast við sjálfum sér og breyskleikum sínum, því reynsla höfundar mun alltaf takmarka hann og móta. Erindi Þórunnar var bæði einlægt og ástríðufullt. Hún var sem manneskja á krossgötum eftir skilnað og leitaði huggunar í skáldskap. Sagðist trúa heilshugar á heilunarmátt skáldskaparins. „Þegar maður skrifar mætir maður sínum innsta kjarna,“ sagði Þórunn. Til að móta trúverðugar persónur þá þarf að gefa sig algjörlega í verkið. Stundum hefur hún verið spurð að því hver af persónunum í bók hennar sé hún og svarið er: ég er þær allar. Hver einasta manneskja er margbreytileg en helst segist hún vilja vera hin hugrakka pönkarastelpa Annika. Hrafnhildur, aðalpersónan hafði mikil áhrif á höfundinn og sömuleiðis hafði höfundur og líf höfundar áhrif á þróun persónunnar. Þórunn Rakel spurði, hvað er það að vera öðruvísi? - og svaraði að kannski er ekki til neitt sem heitir venjulegt. Í því samhengi benti hún á mesta hrósið í lok bókarinnar þar sem sagt er: Þú veist alveg að þú ert ekkert venjuleg.

Að vera mannlegur er flóknara en mannkynið hefur viljað viðurkenna, sagði höfundurinn í lokin og kom einnig inn á tregðulögmálið og heimfærði það á manneskjuna, þegar kraftar, jafnvel í formi fólks verka á okkur og breyta kyrrstöðu í hreyfingu, jafnvel kraftar yngri kynslóða sem vilja berjast fyrir réttlæti í heiminum.
 

Fjölbreytileiki og myndasögur

Atla Hrafney var önnur á mælendaskrá, en hún er formaður Íslenska myndasögusamfélagsins. Atla Hrafney fjallaði um myndasögur og mikilvægi fyrirmynda. Hún er sjálf transkona og sagði frá sjálfri sér og spurði hver sé framsetning trans-einstaklinga í bókmenntum. Að það sé mikilvægt að búa til eigin hugmynd um það hvernig kyn getur litið út. Myndasögur geta átt ríkan þátt í að móta fyrirmyndir og gefa fjölbreytninni sýnileika t.d. með kynsegin karakterum og nefndi Atla sem dæmi köttinn Cat-boy. Hún sagði að myndasögur geti virkað beint á hið ósjálfráða innra með hverjum og einum. Að mynd sé skýrari en tungumál.

Atla Hrafney kom sjálf í Grófina sem barn og las þar Manga-bækur. Það er dýrt að gefa út myndasögur og því algengt í dag að þær séu til í vefútgáfum og börn og ungmenni eru því oft að lesa myndasögur í símanum. Myndasögurnar eru í flestum tilfellum á ensku og lítið til á íslensku, enn sem komið er. Fjölbreytileikinn er því ekki enn kominn á íslensku, sagði Atla Hrafney. En hún nefndi bókina KVÁR, sem mikilvæga íslenska myndasögu, sem var einmitt tilnefnd til Fjöruverðlauna. Í þeirri bók eru tekin viðtöl við fjölda einstaklinga um það hvernig það upplifir sitt kyn. 

Atla Hrafney hefur séð um Anime-klúbba á Borgarbókasafninu, þar eru oft krakkar á einhverfurófi og algengt er að þau tali saman á ensku. Mikilvægur vettvangur fyrir börn sem finna sig kannski ekki í ýmsum öðrum hópum og finna samhljóm m.a. í gegnum myndasögur.

Atla Hrafney minnti á mikilvægi þess að kynsegin einstaklingar geti séð sig og speglað í ýmsum miðlum. Það er mikilvægt að efla myndrænan miðil og sýna meiri fjölbreytileika.

Atla kom með fjölda myndasagna með sér og sýndi gestum, þar á meðal bókina The Carpet Merchant of Konstantiniyya, eftir Reimena Yee. Stórglæsilegt og mikið verk.

 

Gestir fengu sér súpu og salat í hádegishléinu og spjölluðu saman eftir erindi Ötlu. Margir gesta vildu ræða við hana um heim myndasagna.

 

Þegar ég verð stór ætla ég að halda áfram að vera lítill

Eftir hlé var það Sverrir Norland sem steig í pontu og flutti erindi um skrif og útgáfu á barnabókum. Hilmar kynnti hann með orðum úr verki hans, Stríð og kliður, á þá leið: - við þurfum að fara vel með heiminn því hann ólgar í æðum okkar.

Sverrir hóf erindi sitt á að fjalla um hugmyndina um karlmennsku og  hinn fullkomna karlmann. Hugmynd sem er kannski í ákveðinni upplausn, við heyrum meira um eitraða karlmennsku og Sverrir spyr: hvar er jákvæð karlmennska?

Sverrir hefði jafnvel viljað kalla erindi sitt: Þegar ég var lítil stelpa - en hann sagði frá börnum sínum og skemmtilegri sögu af Ölmu dóttur sinni sem fór í ballett í verkamannagalla með þverslaufu. Alma vildi vera Almar sjóræningastrákur, og sagði sjálf að það væri betra að vera strákur því þeir mega gera allt sem þá langar. Hún sagði: Ég er í stelpulíkama en í hjarta mínu er ég strákur. 

Sverrir sagði frá upplifun sinni að vera heimavinnandi húsfaðir og að lifa sig inn í bæði barnauppeldi sem og bókmenntir og að fyrir sér væri það að skrifa og lesa sami hluturinn. Það er gaman að búa til sögur og að lesa er sjálfsleit alveg eins og skrif.

Sverrir sagði frá bókaútgáfu sinni og konu sinnar Cerise Fontaine, AM forlag, sem gefur út þýddar barnabækur. Hann sýndi m.a. bókina Eldhugar, sem er myndasaga fyrir 8 til 80 ára. Saga um merkilegar konur í aldanna rás. Bókin Heimili sýnir ólík heimili í veröldinni, opnar augun fyrir því hvað heimurinn er stór. Síðan nefndi Sverrir að dýrin sem við deilum heiminum með eru einnig hluti af fjölbreytileika og þau koma einmitt oft við sögu í barnabókum. Grafísk uppsetning texta er mjög mikilvæg til að vekja áhuga krakka, sagði Sverrir, því það er mikil samkeppni um athygli okkar í dag. Sverrir leggur áherslu á að virkja gleði og sköpunarkraft barna og leyfa þeim að segja sögur.

 

Allskonar bækur fyrir allskonar fólk – að skrifa fyrir nútímabörn á ýmsum aldri

Þórdís Gísladóttir lauk ráðstefnunni með sögulegu yfirliti um barnabókmenntir og sýn á skrif fyrir börn. Nýjasta bók Þórdísar kom út núna í byrjun mars og ber heitið Algjör steliþjófur! Þórdís segir að lengi vel hafi höfundar ekki skrifað fyrir börn og barnabókin var síðan stofnanavædd og spyrt saman við uppeldisfræði. Fræðslukrafan var því yfirþyrmandi, en í dag er krafan um skemmtiefni hins vegar rík. Þórdís benti á að börn hafi áður verið jaðarsett og líkt við dýr, villt og ótamin sem þarf að ala upp - en sýn á börn hefur breyst og það sést vel í barnabókum. 

Áður var ekki mikið um frumsamið efni fyrir börn en bókaútgáfa á barnabókum breyttist á stuttum tíma og næstum á einni nóttu árið 1974 með útgáfu á bókum Guðrúnar Helgadóttur. Bækur hennar urðu uppspretta samtala um stöðu stétta og um jafnrétti. Hún tekur upp hanskann fyrir félagslegt raunsæi í barnabókum.

Samkvæmt Þórdísi var það raunsæið sem kom með þetta ALLSKONAR inn í barnabækur, en segir einnig að raunsæið hafi gengið sér til húðar og ævintýraleg endureisn hafi átt sér stað. Hún nefnir Múmín sem gott dæmi um bækur þar sem landamæri barna og fullorðinna máist út. Þessi mörk verða alltaf meira og meira fljótandi. Daglegt líf barna endurspeglast í barnabókum. Börn eru auðvitað ólík eins og fullorðið fólk

Þórdís sagði frá sinni sýn og skrifum, að mikilvægt sé að sleppa sér lausum, hugsa eins og barn. Að skrifa bækur þar sem börn sjá sjálfan sig en einnig ólíka og aðra heima. Speglun er mikilvæg og jafn mikilvægt að sjá inn um glugga annarra. Þórdísi finnst gaman að segja sögur og að skemmta. Henni finnst mikilvægt að bækur séu ögrandi og barnabækur séu á tveimur plönum. Höfundur getur verið á hálum ís þegar hann byrjar að lýsa jaðarhópum. Markmiðið er að persónurnar fái að vera þær sjálfar án þess að vera eitthvað frávik. Barnabækur þurfa ekki alltaf að bera með sér skilaboð og merkingu. 

Þórdís sagði lestur lýðræðislega mikilvægan en lestur er einnig skemmtun og dægradvöl. Það er mikilvægt að geta gleymt sér í söguheimi og fundið gleðina við lesturinn. Það eru góð lokaorð á ráðstefnu um bókmenntir fyrir börn og unglinga.

 

Sjá streymi frá ráðstefnunni.

Hér er hægt að hlusta á brot úr erindum í útvarpsþættinum Orð um bækur.

Umfjöllun á Rás 1 og ruv.is.

Að árlegri ráðstefnu um barna- og unglingabókmenntir standa FFÁS, SÍUNG, IBBY, SFS, Upplýsing og Borgarbókasafnið.

 

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 12:22