Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin

AÐ FARA Í JÓLAKÖTTINN

Þið kannist við jólaköttinn
sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.

Svo yrkir Jóhannes úr Kötlum í upphafi ljóðabálks um þetta óargadýr sem er soltinn og grimmur og vekur hroll í hjörtum. Í kvæðinu leggst kötturinn á fátækt fólk sem á í miklu basli og fær enga spjör fyrir jólin. Því er keppst við að prjóna og sauma nýja flík á mannskapinn til að enda ekki í jólakettinum. Söngur Bjarkar Guðmundsdóttur á þessu kvæði Jóhannesar er minnistæður og kom út á safnplötunni Hvít er borg og bær árið 1987 með ýmsum jólasöngvum. En margir fleiri hafa einnig sungið þetta skemmtilega kvæði skáldsins.


Það vill enginn fara í jólaköttinn sem er þessi stórundarlega refsing fyrir að standa sig ekki í jólaundirbúningnum, já eða einfaldlega að eiga ekki nýja skó eða flík á jólunum. Líklega hefur jólakötturinn haft töluverð áhrif um tíðina ef marka  má jólaundirbúning landans. Í ljóði um jólaköttinn eftir Kristínu Ómarsdóttur í bókinni Jólaljóð frá árinu 2006 þá er það varasamt fyrir stúlkur að vera á sokkabuxum einum fata.

Jólakötturinn

Jólakötturinn svarti
eltir stelpur á sokkabuxum.
Stelpur sem eru ekki
á kjól eða í pilsi.
Bara á sokkabuxunum.

Og bol eða peysu.

Hann eltir þær á röndunum,
lætur þær aldrei í friði
fyrr en stóra stundin
rennur upp
og þær klæða sig í kjólinn


Á Vísindavefnum er spurt um uppruna jólakattarins og það er víst ekki til einfalt né öruggt svar við þeirri spurningu. Fræðimenn telja almennt að jólakötturinn eigi sér rætur í öðrum jólavættum sem þekkjast í Evrópu. Þessi ágæti köttur kemur mögulega við sögu í jóladagatali Borgarbókasafnsins í ár, Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin. En stúlkan Guðrún elskar kisur og þráir heitt að eignast ljúfan góðan kött, en þó ekki hættulegt óargadýr sem étur börn.
 

Jólakötturinn birtist í þriðju ljóðabók Jóhannesar, Jólin koma, frá árinu 1932. Þetta hefur orðið hans vinsælasta bók og líklega sú sem hefur haldið nafni hans á lofti kynslóð eftir kynslóð. Hann vinnur úr þjóðsögum um hina grimmu Grýlu, jólasveina sem hrekkja og þetta óargadýr sem jólakötturinn er. (Sjá inngang Silju Aðalsteinsdóttur „Ekkert nema ljóð mitt“ í Ljóðaúrvali frá 2010).

 
Nú í ár kom síðan út skemmtileg úrvinnsla og endursköpun á  verki Jóhannesar úr Kötlum, ljóðabókin Koma jól? eftir þau Hallgrím Helgason og Rán Flygenring. Hér er að finna nýjustu fréttir af Grýlu og jólakettinum og þá stíga hinar jökulhressu Grýludætur, systur jólasveinanna, fram úr þúsund ára löngum skugga bræðra sinna og arka til byggða, hver með sínu lagi og hrekkjabrögð í farteskinu. 

Og það eru fleiri sem kveðast á við Jóhannes úr Kötlum fyrir þessi jól en í ljóðabókinni Við hæfi eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur segir skáldið vera innblásið af náttúrunni, ónáttúrunni og skáldskap Jóhannesar úr Kötlum. Heiðrún yrkir þó ekki um jólaköttinn heldur undraheim náttúru og skáldskapar. Í  ljóðinu, Jóhannes og ég, segir m.a.:

Reynum bæði að lýsa því með orðum
hvernig þessi undraveröld hlær
og lokkar alla þá sem hingað koma
er strýkur vanga ljúfur aftanblær

Kenndirnar sem vakna í faðmi fjalla
hvítra, blárra trölla átthaga
við tálgum til svo passi inní vísu
sem lesist til að flýja hráslaga

Frá fjallafaðmi skáldanna aftur að jólakettinum. Kettir sem ógn og myrkraverur þekkjast vel í þjóðtrú okkar. Ekki eru til miklar heimildir um jólaköttinn en sagt er frá honum í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar frá 1862 og þaðan fær Jóhannes úr Kötlum efniviðinn í lífseigt kvæði sitt og því lifir hann að öllum líkindum enn. En hið grimma kvæði um jólaköttinn lýkur á ákalli um samkennd, að við hjálpum hvert öðru til að allir megi eiga gleðileg jól. 

Þið hafið kannski í huga
að hjálpa, ef þörf verður á.
Máske enn finnist einhver börn
sem ekkert fá.

Máske, að leitin að þeim sem líða
af ljós-skorti heims um ból,
gefi ykkur góðan dag
og gleðileg jól.

 

Jólakötturinn er skemmtileg og skrítin þjóðtrú, ógnandi skuggavera sem fólk einmitt veit ekki hvaðan kemur né hvert fer en nauðsynlegt er að verjast öll saman sem eitt - svo enginn lendi í jólakettinum.

Hér má sjá Jólaköttinn í Reykjavík sem stendur á Lækjartorgi, lýsir upp skammdegið, fagur og ógnandi í senn.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. desember, 2021 05:45
Materials