Sögur
Hvað er Sögur?
Sögur - verðlaunahátíð barnanna er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, KrakkaRÚV, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Reykjavík Bókmenntaborgar UNESCO, Borgarleikhússins, List fyrir alla og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Verkefni Sagna er tvíþætt, að hvetja börn til sköpunar og lyfta upp verkum þeirra og svo að gefa börnum rödd til að segja hvað þeim finnst best af því sem er gert á sviði barnamenningar.
Borgarbókasafnið býður upp á fjölbreyttar smiðjur þar sem við hvetjum börn til að skapa sín eigin verk sem þau geta sent inn í samkeppni Sagna. Samkeppnin er að hausti og geta börn í 3.-7. bekk sent inn í fjórum flokkum, smásögu, stuttmyndahandrit, leikritahandrit og lag og texta.
Í byrjun árs velja dómnefndir í hverjum flokki hvaða smásögur, handrit og tónlist verða unnin áfram af fagfólki og verðlaunuð á Sögum – verðlaunahátíð barnanna. Börnin sem eiga sigurverk í flokki smásagna fá tækifæri til að vinna þær áfram með ritstjóra. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu gefur svo út sögurnar í bók, Risastórar smásögur. Börnin sem vinna í flokki stuttmyndahandrita fá tækifæri til að vinna með KrakkaRÚV að framleiðslu stuttmyndarinnar. Börnin sem vinna í flokki leikrita fá tækifæri að vinna með leiklistarskóla Borgarleikhússins að uppsetningu leikritsins og börnin sem vinna í flokki tónlistar og texta fá tækifæri að vinna með pródúsent við útsetningu lagsins. Á verðlaunahátíðinni er svo fengið þekkt tónlistarfólk til að flytja lögin.
Í febrúar og mars geta börn í 1. - 7. bekk kosið sínar uppáhaldsbækur í Bókaverðlaunum barnanna og uppáhaldsmyndlýsingar í Myndlýsing ársins í skólum og bókasöfnum um allt land. Í apríl upplýsir Borgarbókasafnið hvaða 10 bækur börnin kusu í Bókaverðlaunum barnanna. Í maí verður tilkynnt hvaða íslensku bækur og myndlýsingar eru tilnefndar til verðlauna Sagna og verður þá einnig opnað fyrir þá kosningu með hátíðlegri athöfn. Í kosningu Sagna kjósa börnin úr 11 flokkum um allt það besta á sviði barnamenningar á Íslandi.
Í byrjun júní verða úrslitin kynnt bæði úr kosningunni og samkeppnunum á stórglæsilegri verðlaunahátíð sem sýnd verður í beinni útsendingu á RÚV.
Nánari upplýsingar veitir:
Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnastjóri barna- unglingastarfs
ingibjorg.osp.ottarsdottir@reykjavik.is | s . 411-6146