Myndlýsing ársins
Í febrúar og mars er börnum á aldrinum 6-12 ára boðið að kjósa uppáhaldsmyndlýsingarnar sínar.
Myndir segja meira en þúsund orð! Myndir lýsa því sem er að gerast í sögunni án orða. Þær geta verið fyndnar, óhugnalegar, sorglegar eða sýnt okkur skemmtileg smáatriði sem ekki standa í textanum.
Börn í 1.-7. bekk eru hvött til að skoða vel myndirnar í bókunum eftir myndhöfunda sem búa og starfa á Íslandi. Tilnefndar bækur eru á veggspjaldinu Myndlýsing ársins. Börnin velja þrjár bækur með þeim myndum sem þeim finnst skemmtilegastar, áhugaverðastar eða bestar af hvaða ástæðu sem er. Kosningin er frá 17. febrúar til 28. mars samhliða kosningunni Bókaverðlaun barnanna. Boðið verður upp á rafræna kosningu hér á síðunni en einnig munu skóla- og almenningsbókasöfn um allt land vera með kjörseðla og -kassa. Hér er hægt að nálgast kjörseðla fyrir skólabókasöfn (pdf) og almenningsbókasöfn (pdf). Börnin geta merkt kjörseðlana og hvetjum við söfnin til þess að draga út heppinn þátttakenda og veita viðurkenningu fyrir þátttöku. Við biðjum öll þátttökusöfn og -skóla um að skrá atkvæðin í talingarskjal (excel) og senda sínar lokatölur fyrir 4. apríl 2025 til verkefnastjóra verkefnisins.
Myndlýsingarnar sem verða í efstu tíu sætunum verða í kosningu Sagna 2. - 18. maí á sogur.is. Verðlaunahátíðin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV 7. júní.