Smátextar | Hornstaurinn og holan góða

Hornstaurinn og holan góða

Ég stend við járnkarlinn minn sem situr fastur í fari sínu í holunni. Hvað er í gangi? Ég góni á járnkarlinn og jugga honum til og frá, þar til hann loks losnar.

Ég dreg hann upp og ætla að keyra hann aftur í sama farið af öllu afli en þá, allt í einu, byrjar þykk svört leðja að vella upp úr fari járnkarlsins!  Hvað er eiginlega að gerast, hugsa ég með mér, gapandi af undrun, með hökuna niður á bringu. Smá saman fyllist holan af þessari illa þefjandi leðju og fer að renna niður hallann, inn í eina geilina í kartöflugarðinum og yfir rabarbarann við enda geilarinnar. Ég stend sem frosinn og horfi steini lostinn á þessi undur.

Ég styð mig við járnkarlinn, agndofa yfir þessari stórfurðulegu sýn. Það  glampar á kolsvarta seigfljótandi leðjuna þar sem hún rennur hægt framhjá mér. Ég finn kunnuglega lykt. Kolsvört leðjan lyktar af svartolíu...

Ég hef fundið olíulind í kálgarðinum mínum. Ég sem var bara að setja niður síðasta hornstaurinn í girðingunni utan um garðinn. Mér verður litið á gamla ryðgaða bílskrjóðinn minn sem stendur við hliðið, hrörlegan húskofann minn fyrir ofan garðinn, gúmmítútturnar á fótunum og stagbætta larfana sem ég stend í. Lít svo aftur með bros á vör á þessa svörtu leðju vella upp úr holunni.

Gat það verið að ég hafi óvart fundið olíulind í kálgarðinum mínum? Nokkru síðar, þegar ég hafði jafnað mig á þessum ósköpum, kom í ljós að svo var því miður ekki. Ég hafði rekið járnkarlinn á kaf í gamla járntunnu, fulla af ónýtri mótorolíu, sem ég hafði fargað þarna fyrir mörgum árum.  

Höfundur: Helgi Klaus Pálsson

Næsti smátexti: Beitan