Smátextar | Beitan

Beitan

Kaldir fingur Jóns glímdu við að koma beitunni upp á öngulinn og hann reyndi að hundsa rigninguna sem trommaði viðstöðulaust á hann og allt um kring. En erfiðast var leiða þetta ámátlega ýlfur í Koli hjá sér. Hann sá að þetta gat ekki gengið svona lengur. Dró andann djúpt, lokaði augunum, taldi hægt upp að tíu. Andaði rólega frá sér, lagði veiðarfærin niður og tók Kol í fangið. Þetta var ágætis skepna sem nauðsynlegt var að hafa með sér í veiðiferðirnar. En hann var orðinn ansi lélegur, þótt hann væri bara á fjórða ári, eineygður, haltur og horaður.  Birta hafði enst í tæp sjö ár og reynst miklu betur. Það var töggur í henni. 

Hann strauk yfir litla kroppinn sem skalf ennþá, klóraði Kol milli blautra eyrnanna og talaði blíðlega til hans. Jón sá enn hræðsluna í auga hans. Hræðslu og óttablandna virðingu. Smám saman róaðist Kolur. Jón lagði Kol niður og tók aftur til við að þræða. Beitan og öngullinn voru enn ekki á því að renna saman. Að lokum stakkst öngullinn í þumalfingur Jóns og í fátinu datt beitan í vatnið. Hann dæsti og horfði vonsvikinn á Kol sem aftur byrjaði að væla. Jón tók Kol í fangið, veiðihnífurinn small upp og hann sagði blíðlega: „Jæja Kolur minn, hvaðan eigum við að taka næsta bita?“

Höfundur: Hraunfjörð 

Næsti smátexti: Orðið er laust