Smátextar | Æpandi

Æpandi

Þær stóðu á tindi fjallsins, mæðgurnar. Önnur í appelsínugulum vindjakka og gulum buxum. Hin í skærljósbláum vindjakka og rauðum buxum.

Þær stóðu þarna og dáðust að útsýninu og rifjuðu upp örnefni.

Stöðugur straumur fólks var upp og niður. Þaðan sem þær stóðu leit straumurinn út eins og röð af litlum svörtum maurum.

Hópur fólks var kominn upp á eftir þeim. Kona úr hópnum gekk til þeirra:

„Góðan daginn, varst þú ekki í flugi frá Orlandó í gær?“ spurði hún og horfði á móðurina.

„Júúú, hvernig veistu það?“ móðirin leit undrandi á þessa ókunnu konu.

„Ég var flugfreyja í vélinni“ svaraði konan og brosti. 

„Jahá, þú ert aldeilis mannglögg. “

„Jaa, sumu tekur maður eftir“ sagði flugfreyjan, kvaddi og hélt til baka, með hópnum sínum.

Dóttirin horfði á móður sína í forundran og tortryggnin skein úr svipnum. „Hvað gerðirðu eiginlega af þér fyrst flugfreyjan man eftir þér úr 200 manna farþegahópi?“

„Ekki neitt, ég svaf mestallan tímann.“

„Eitthvað hefurðu gert fyrst hún þekkir þig þó þið hafið aldei sést áður. Dansaðirðu á ganginum, eða tókstu lagið í flugtaki? Ekki trúi ég að þú hafir verið með leiðindi.“

Móðirin varð hugsi leit svo á dóttur sína og sagði: „Eina sem mér dettur í hug er að ég hafi skorið mig úr dökkklæddum landanum. Ég var í eiturgrænum buxum, skærgrænköflóttri blússu og jakka með bláu, gulu og grænu blómamynstri. Þetta er trúðsgenið í okkur.“

Höfundur: Þel

Næsti smátexti: Hefði þurft að