Pikknikk Klambratúni

Pikknikk á Klambratúni

Það var sannkölluð veisla í Pikknikkinu á Klambratúni. Tvær palestínskar fjölskyldur voru gestgjafar og buðu þátttakendum upp á palestínskt kúskús og musakhan með kjúklingi ásamt namoura sætabrauði. Glatt var á hjalla og fjöldi fólks kom og settist hjá okkur, gæddi sér á dýrindis kræsingum ásamt því að koma með sitt eigið á hlaðborðið.  Pikknikk á Klambratúni

Spiluð var palestínsk tónlist og risasápukúlur svifu um svæðið, börnum jafnt sem fullorðnum til mikillar ánægju og dró fólk á rölti um almenningsgarðinni að. Mikil ánægja var með kræsingarnar og mörg vildu komast á matreiðslunámskeið hjá gestgjöfunum sem fyrst. 

Pikknikk á Klambratúni

Blaðakona frá Grapevine var á staðnum og mun vinna grein um palestínska matarmenningu í samvinnu við gestgjafana. Einnig mættu fréttamenn frá Stöð 2 á svæðið og töluðu við Örwu Albuhaisi. Hún sagði að Pikknikkið væri kjörið tækifæri fyrir Íslendinga til að fræðast betur um palestínska menningu og mat og að þau hafi fundið fyrir stuðningi og skilningi í samstarfinu. Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar var samstarfsaðili og stofnaði til samstarfs Borgarbókasafnsins við gestgjafana. Hér má sjá fréttainnslagið á Stöð 2 - viðtalið byrjar á 13. mínútu fréttatímans. Smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá myndbrot frá viðburðinum.

Myndbrot frá Pikknikki á Klambratúni

Í haust verður haldið áfram með Pikknikk inni á bókasöfnunum og eins og venja er fyrir er nýr gestgjafi í hvert skipti. Hér má sjá yfirlit yfir Pikknikk ársins 2024.

Frekari upplýsingar veitir: 
Dögg Sigmarsdóttir 
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka 
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 4. júlí, 2024 14:59