Íslandskort Söguhrings kvenna

Íslandskort Söguhringsins

Íslandskort Söguhrings kvenna var málað árið 2013 af 35 konum frá 18 þjóðlöndum. Hver kona bjó til sitt persónulega tákn og úr varð nýtt og litríkt Íslandskort. Við gerð málverksins notuðu konurnar aðferð frumbyggja Ástrala, sem felst í því að margir vinni í sameiningu að því að skapa listaverk.

Söguhringur kvenna/The Women's Story Circle er samvinnuverkefni Borgarbókasafnsins og WOMEN In Iceland, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Söguhringurinn er vettvangur fyrir konur til að skiptast á sögum, segja frá reynslu sinni og menningarheimi í skapandi umhverfi. Öllum konum er velkomið að taka þátt í Söguhringnum.


Íslandskortið er hannað fyrir fyrirtækið Kaffitár sem hafði samband við safnið til að fá listaverk gert af Söguhringnum til notkunar á kaffihúsum, kaffiumbúðum og annarri kynningu fyrirtækisins. 

Það má segja að þátttakendur hafi bókstaflega sett sín spor á íslenskt landslag – og sporin ratað víða um landið. Hugmyndin hefur meira að segja ratað út fyrir landsteinana og hafa nemendur við Aristóteles háskólann í Grikklandi gert kort í sama anda og kort Söguhrings kvenna.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 4. ágúst, 2021 10:27