Um þennan viðburð

Tími
15:00 - 16:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Liðnir viðburðir

100 ára afmæli | Bókmenntaganga með Kristínu Svövu Tómasdóttur og gestum

Laugardagur 15. apríl 2023

Kristín Svava Tómasdóttir, skáld og sagnfræðingur, býður til bókmenntagöngu um miðbæinn. Lagt verður af stað frá Borgarbókasafninu Grófinni kl. 15:00, rölt um bæinn og staldrað við á vel völdum sögufrægum og skáldlegum stöðum. Í bókmenntagöngunni mun hún sækja í fjölbreytt rit frá fyrri hluta 20. aldar. Lesið verður úr skáldsögum, endurminningabókum og ljóðum sem tengjast dramatískum og skemmtilegum Reykjavíkursögum af ástum, dauða og leynivínsölu. Við sögu koma mörg skáld, nokkrar kvenréttindakonur, tveir drykkjumenn og að minnsta kosti ein ljósmóðir.

Gestur í göngunni er Haukur Már Helgason, rithöfundur og heimspekingur, og bók hans Tugthúsið sem er áhrifamikil skáldsaga sem varpar nýju ljósi á lífið í Reykjavík á seinni hluta átjándu aldar, aumustu þegna landsins og valdhafana sem sýsluðu með örlög þeirra.

Gangan tekur rúma klukkustund og þið eruð öll velkomin í veisluna!

Kristín Svava hefur sent frá sér skáldskap og sagnfræðiverk um ólík efni, svo sem á sviði menningarsögu og heilbrigðissögu, kvenna- og kynjasögu, kynferðissögu og hinsegin sögu. Nýjasta verk hennar er bókin Farsótt, sem segir sögu gamla Farsóttahússins í Þingholtsstræti 25, en fyrir hana var Kristín Svava tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka. 

Þau Kristín Svava og Haukur Már taka bæði þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár sem hefst þann 19. apríl.

 

Sjá viðburð á Facebook.

Smellið hér til að skoða afmælisdagskrána í Borgarbókasafninu Grófinni.

Smellið hér til að skoða afmælisdagskrána í öllum söfnum okkar helgina 15. og 16. apríl.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri bókmenntaviðburða
soffia.bjarnadottir@reykjavik.is | 411 6122