Tilnefningar | Viðurkenning Hagþenkis

 

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings.

Í dag þann 8. febrúar voru tíu rit tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2022.
Tilnefningarathöfn Hagþenkis fór fram á Borgarbókasafninu Grófinni og við óskum höfundum innilega til hamingju með heiðurinn.
 

Hér gefur að líta þau tíu framúrskarandi rit sem eru tilnefnd í ár og umsögn dómnefndar.

Bækurnar má að sjálfsögðu finna, lána, lesa og grúska í 
á Borgarbókasafninu (sjá neðst): 

 

Anna María Bogadóttir:
Jarðsetning.
Útgefandi: Angústúra.

Persónulegt og vekjandi rit um manngerð rými sem hvetur til yfirvegunar um uppbyggingu og niðurbrot.
 

Ásdís Ólafsdóttir og Ólafur Kvaran:
Abstrakt geómetría á Íslandi 1950–1960.
Útgefandi: Veröld.

Vandað og fallegt rit um byltingaráratug í íslenskri myndlist. Ítarleg umfjöllun um tímabilið með myndum af einstökum verkum listamanna.
 

Ástríður Stefánsdóttir, Guðrún V. Stefánsdóttir og Kristín Björnsdóttir (ritstj.):
Aðstæðubundið sjálfræði. Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun.
Útgefandi: Háskólaútgáfan.

Hagnýtt fræðirit um þann einfalda en oft hunsaða sannleik að allir þjóðfélagsþegnar eigi að njóta grundvallarmannréttinda. Tímamótaverk.
 

Daníel Bergmann:
Fálkinn.
Útgefandi: Anda.

Falleg og vönduð bók sem gefur góða innsýn í lifnaðarhætti fálkans og náið samband hans við íslensku rjúpuna, prýdd einstæðum ljósmyndum.
 

Helgi Þorláksson:
Á sögustöðum. Bessastaðir, Skálholt, Oddi, Reykholt, Hólar, Þingvellir.
Útgefandi: Vaka-Helgafell.

Mikilvæg bók sem teflir niðurstöðum nýlegra rannsókna fram gegn hefðbundinni sýn á sögustaði.
 

Hjalti Pálsson: 
Byggðasaga Skagafjarðar. I.–X. bindi.
Útgefandi: Sögufélag Skagfirðinga.

Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda.
 

Kristín Svava Tómasdóttir:
Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25.
Útgefandi: Sögufélag.

Saga Farsóttarhússins myndar ramma utan um óvæntar frásagnir og sjónarhorn sem skerpt er á með vönduðu myndefni.
 

Ragnar Stefánsson: 
Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta.
Útgefandi: Skrudda.

Vandað fræðirit um jarðhræringar á Íslandi stutt viðamiklum mæligögnum og frábærum skýringarmyndum og kortum.
 

Stefán Ólafsson:
Baráttan um bjargirnar. Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags.
Útgefandi: Háskólaútgáfan.

Víðtæk og vel skrifuð þjóðfélagsfræðileg greining á þróun lífskjara og samfélagsgerðar á Íslandi.
 

Þorsteinn Gunnarsson:
Nesstofa við Seltjörn. Saga hússins, endurreisn og byggingarlist.
Útgefandi: Þjóðminjasafn Íslands.

Ítarlegt yfirlitsrit þar sem lesendur fá glögga innsýn í aldarfar og atburði í kaupbæti með sögu Nesstofu fyrr og nú.
 

 

Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn um miðjan mars og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr.

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn og í því eru: Ársæll Már Arnarson, Halldóra Kristinsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason, Sússana Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Verkstjórn er í höndum Friðbjargar Ingimarsdóttur framkvæmdastýru Hagþenkis.

Við hvetjum lánþega Borgarbókasafnsins að kynna sér tilnefndar bækur á safninu.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 28. febrúar, 2023 09:30
Materials