Ulysses eftir James Joyce
Þegar bókin kom fyrst út var hún bönnuð fyrir klám og guðlast víðast hvar í hinum enskumælandi heimi og var illfáanleg.
Írski rithöfundurinn James Joyce fæddist þann 2. febrúar árið 1882 í Dublin. Skáldverkið Ulysses var fyrst gefið út í pörtum á árunum 1918 til 1920 í amerísku tímariti en það var á fertugsafmæli höfundarins 2. febrúar 1922 að Ulysses kom út í heild sinni í París. Það eru því 100 ár frá frumútgáfu af þessu goðsagnakennda verki, sem er meðal þekktustu skáldsagna 20. aldarinnar, en verkið hefur einnig verið nefnt eitt erfiðasta viðureignar.
„Þegar bókin kom fyrst út var hún bönnuð fyrir klám og guðlast víðast hvar í hinum enskumælandi heimi og var illfáanleg, en varð þó samtímis eitt helsta umræðuefni bókmenntafólks. Ýmsir rithöfundar og fræðimenn létu meira að segja á prent ganga yfirlýsingar sínar um bókina án þess að hafa nokkru sinni litið hana augum (og enn er það svo að einungis fáir þeirra sem vita af Ulysses hafa í rauninni lesið verkið). Strax í upphafi varð því til goðsögnin um stóru punktalausu bókina og eins má það teljast athyglisverð mótsögn að Ulysses, eða Ódysseifur eins og hún heitir á íslensku, skyldi í senn teljast ólæsileg og hættuleg.“
Ástráður Eysteinsson, Umbrot, 1999.
Sigurður A. Magnússon þýddi skáldsöguna yfir á íslensku, Ódysseifur. Þýðingu og frumtexta má að sjálfsögðu finna á Borgarbókasafninu ásamt fleiri bókum eftir Joyce og einnig annað efni sem tengist höfundarverki hans. Á Rafbókasafninu má einnig finna bækur eftir James Joyce, bæði hljóð- og rafbækur.
Nú er spurning hvort fólk hætti sér, 100 árum síðar, til að lesa bókina sem var talin bæði ólæsileg og hættuleg.