Viðburður | Brot úr sumarútgáfunni með Sunnu Dís
Sunna Dís Másdóttir spjallar við þau Ingunni Snædal, Önnu Hafþórsdóttur og Halldór Guðmundsson um nýlegar þýðingar og verk sín.
Borgarbókasafnið Sólheimum
Fimmtudaginn 26. ágúst kl. 18-19
Sjá viðburð hér
Ingunn Snædal skáld og þýðandi hefur verið ötul við þýðingar undanfarin ár. Bækurnar sem nú um ræðir eru Fimmtudagsmorðklúbburinn eftir Richard Osman og Bréfið eftir Kathryn Hughes.
Í kynningu segir að Fimmtudagsmorðklúbburinn sé frásögn af hópi ellilífeyrisþega sem hittist á fimmtudögum til að leysa óleyst sakamál. Hrottalegt morð á sér stað á þröskuldinum hjá þeim og þá er klúbburinnn kominn með glóðvolgt mál að leysa. The Guardian segir söguna hina fullkomu glæpasögu - spennandi og uppfulla af breskum húmor. Þetta er fyrsta bók Lundúnabúans Richard Osman sem er skemmtikraftur og sjónvarpsmaður.
Bréfið fjallar um Tinu, sem er gift drykkfelldum ofbeldismanni. Hún er sjálfboðaliði í nytjaverslun og finnur bréf í gömlum jakka og þar með upphefst mikil örlagasaga tveggja kvenna á ólíkum tímaskeiðum, annars vegar á stríðsárunum um 1940 og hins vegar upp úr 1970. Bréfið er fjórða bók Kathryn Hughes en von er á nýrri bók frá henni á árinu , The Memory Box.
Að telja upp í milljón er fyrsta skáldaga Önnu Hafþórsdóttur, eftirtektarverð frumraun um flókin fjölskyldutengsl, áföll og samskiptaleysi. Anna hefur undanfarin ár starfað sem leikkona og handritshöfundur en skáldsaga hennar bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, árið 2021, ásamt smásagnasafninu Í miðju mannhafi eftir Einar Lövdahl .
Sagnalandið eftir Halldór Guðmundsson er bókmenntahringferð um Ísland með viðkomu á stöðum þar sögur eiga sér uppruna og hafa orðið kveikjur ljóða eða skáldsagna. Bókin er sögð í senn handbók fyrir ferðalanga og reisubók hugans. Halldór hefur fjölbreytta reynslu úr landslagi bókmennta, fengist við rannsóknir og skrif, starfað sem útgáfustjóri við bókaútgáfu og kynnt íslenskar bókmenntir á erlendri grund.
Það er Sunna Dís Másdóttir, bókmenntagagnrýnandi og skáld sem stýrir umræðum um útgáfu sumarsins.
Dæmi um fleiri áhugaverðar bækur frá vor- og sumarútgáfu ársins: Kona á flótta eftir Anais Barbeau-Lavalette, Að borða Búdda eftir Barbara Demick, Ást eftir Alejandro Palomas, Hún sem stráir augum eftir Björk Þorgrímsdóttur Nickel-strákarnir eftir Colson Whitehead, sem hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 2020.