
Um þennan viðburð
Vélhundurinn Depill og Jólahvað með Braga
Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Tómas Zoëga, höfundar Vélhundsins Depils, bjóða til upplesturs og hundasmiðju.
Að því loknu býður Bragi Árnason gestum að syngja og rýna með sér í texta vinsælustu jólalaganna.
Dagskráin byrjar kl. 13.30 með upplestri úr bókinni Vélhundurinn Depill og í kjölfarið verður smiðja þar sem gerðar verða ýmsar tegundir af hundum úr pappír. Má þar nefna pappírsvélhundar, hauslausir hundauppvakningar, loðnir hundar, sexfættir hundar, hundar með hendur, pínulitlir hundar og risastórir hundar.
Kl. 14.30 syngur Bragi jólalög og segir jólasögur og fær börn og fullorðna til að rýna með sér í texta vinsælustu jólalaganna og túlka þá með sér.
Hver var þessi Jón á völlunum og af hverju vildu jólasveinarnir fara með Andrés til tröllanna? Var Grýla alltaf að sópa og hvers vegna var þessi kanna á stólnum? Og hvar var Leppalúði? Var hann bara að leggja sig og tók engan þátt í uppeldinu? Er til jólahundur eða jólahamstur?
Þessum og mörgum öðrum spurningum verður reynt að svara á jólagleðinni.
Það verður líka dansað og trallað og boðið upp á piparkökur og kakó í lok dagskrár.
Höfundarnir Tómas Zoëga og Sólrún Ylfa, sem jafnframt er myndskreytir, hafa gefið út nokkrar bækur og verið tilnefnd til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Árið 2020 unnu þau Tómas og Sólrún Ylfa samkeppni um jóladagatal Borgarbókasafnsins með sögunni Nornin í eldhúsinu.
Bragi Árnason er tónlistarmaður og leikari sem hefur samið og sett á svið tvo söngleiki, leikið í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, samið sönglög og margt fleira. Bragi er alltaf með mörg járn í eldinum s.b. gerð á nýrri teiknimyndaseríu að nafni Ormhildarsaga og grínþáttunum Vesen hjá Sjónvarpi Símans.
Nánari upplýsingar veitir:
Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri
holmfridur.olafsdottir@reykjavik.is