Lesandinn | Maríanna Clara Lúthersdóttir
Lesandi vikunnar er nýr starfsmaður Borgarbókasafnsins, Maríanna Clara Lúthersdóttir. Hún mælir með klassíkinni Middlemarch eftir George Eliot.
„Ég hafði ætlað mér að lesa Middlemarch í mörg mörg ár en kom mér aldrei að því, sennilega af því hún er í lengri kantinum en svo um leið og ég byrjað varð þetta nett fíkn, ég var alltaf að stelast til að lesa einn kafla í viðbót. Ég vildi óska að hverjum landsmanni væri úthlutað „lestrarfríi“ á hverju ári þar sem hægt væri að fá frí og frið til að lesa bækur sem er lífsnauðsynleg iðja sem stundum verður að lúta í lægra haldi fyrir vinnu, barnauppeldi, matseld og jafnvel þrifum!
En þetta er sem sagt dásamleg bók, heimur sem hægt er að gleyma sér gjörsamlega í. Sagan gerist á fyrrihluta 19. aldar og rekur sögu nokkurra íbúa þorpsins Middlemarch í Englandi á umbrota tímum í sögu landsins, þótt pólitískar ólgur stjórnvalda hafi kannski ekki alltaf bein áhrif á sveitaþorpið. Persónurnar eru margar og ótrúlega vel skrifaðar og marghliða, margar grátbroslegar og jafnvel óþolandi en þó er eins og höfundurinn hafi samúð með þeim öllum. Þrátt fyrir að hafa komið út (í nokkrum áföngum) milli 1871 og 1872 er hún á einhvern hátt ótrúlega raunsæisleg og nútímaleg sýn á breyskleika manneskjunnar og nær að vera bæði fyndin og harmræn. Bókin er listaverk þar sem líf ólíks fólks fléttast saman, skarast og myndar sérstaklega litríkan og heillandi vef. Hún er löng en sögurnar eru margar og Eliot tekst að halda svo mörgum boltum á lofti í einu að maður nær aldrei að láta sér leiðast – þvert á móti var ég eyðilögð þegar bókin kláraðist og ég þurfti að kveðja þorpið og persónur þess.
Ég mæli með bókinni sem fæst einmitt hér á safninu en ég mæli líka með hljóðbókaútgáfunni þar sem breska leikkonan Juliet Stevenson les frábærlega.