Margt smátt | Nasi
Nasi
Sólargeislar baða lítið sjávarþorp. Það er mislangt á milli húsa; sum eru gömul, önnur ný. Hér og hvar í útjaðri þorpsins eru hrörleg útihús og kofar á stangli á túnunum sem eru eins græn og þau geta orðið í kvöldsól í júlí. Vesturgluggar sindra í sumarsnjóhvítum - ljóðrænum lit sem fæst í Kaupfélaginu - húsum með rauðu þaki. Nokkrar trillur og stærri trébátar vagga við bryggjur. Endalaus flóinn glitrar og fjallið vakir. Ró er yfir öllu en ungleg hlátrasköll - bannað að segja píkuskrækir á okkar tímum - og reykjarbólstrar berast út í kyrrðina frá byggingu sem gæti hafa verið fjárhús og stendur utarlega í þorpinu.
Hér vinna unglingarnir frá átta til sjö í frystihúsinu sem stendur við Höfðann út við sjóinn og eiga sand af seðlum. Á kvöldin fara þeir um í flokkum líkt og síldartorfa. Það leiðir athyglina að gamalli síldarverksmiðju sem stendur við höfnina; hrörleg og glæsileg í senn. Hún komst eiginlega aldrei í gagnið af því að síldin fór um svipað leyti og verksmiðjan var tilbúin. Já, hér var meira að segja einu sinni bakarí. Úr stóra strompinum við hliðina á síldarverksmiðjunni berst hvorki reykur né peningalykt í kvöldkyrrðinni. Síldin er farin, togarinn er á miðunum og túristarnir eru enn ókomnir. Einn ferðamaður er í sundlauginni. Þegar vel er hlustað má heyra Stuðmenn flytja lagið Í bláum skugga í bland við hlátrasköllin.
Margir kofar í bænum verða rifnir þetta sólríka sumar vegna þess að unglingarnir finna sér alltaf nýja og nýja eftir því sem hreppsnefndin lætur rífa fleiri í því skyni að uppræta hópamyndun og reykingar unglinga. Af nógu er að taka. Satt að segja hefur þorpið aldrei litið betur út en þetta sumar.
Nei sko; þarna situr þú á sundlaugarbekk við hliðina á vinkonu þinni sem er byrjuð að taka ofan í sig. Þrettán ára beinasleggja, með þvertopp og axlarsítt hár sem þú hjálpaðir henni að lita fjólublákastaníujarpt inni á klósetti með lit sem þið keyptuð í Kaupfélaginu. Þið eruð klæddar samkvæmt nýjustu tísku; í fótlaga skóm með þverbandi og hrágúmmísóla, röndóttum sokkum, útvíðum uppbrettum puffin gallabuxum og sjóliðabolum með köðlum og gylltum merkjum. Utan yfir eruð þið í léttum hermannajökkum - líka með merkjum - og hafið komist inn í stelpuklefann ásamt krakkastóðinu eftir að kofarnir voru rifnir og verkstjórinn í frystihúsinu kom að ykkur reykjandi í umbúðageymslunni og henti ykkur út. Vonandi verður sundlaugin ekki rifin þó að hún sé gömul og farin að láta á sjá. En samt, kannski, bara kannski, fáið þið með þessu móti nýja búningsklefa, með skápum og lyklum, ekki bara trébekkjum, snögum, flagnaðri sægrænni málningu og einni sturtu, jafnvel nýja laug. Þú sem getur synt kafsund fram og til baka án þess að koma upp til að anda. Ef heitur pottur fylgir með getur þú hætt að hanga upp við heita rörið til að hlýja þér.
Litli bróðir þinn er hræddur við ykkur. Eitt kvöldið þurftir þú að skreppa heim til þín til að sækja meiri peninga og krakkastóðið beið úti í garði. „Það eru unglingar úti,“ sagði hann með óttablandinni virðingu.
Það er sláttur á vinkonu þinni með sígarettuna. Hún hefur áður tantaliserað þig með sælgæti; lét þig öfunda sig lengi og svo máttir þú fá afganginn sem var oft ekki mikill. Nú átt þú að bíða á meðan hún fer á næsta stig í reykingunum. Það er gaman að hanga með henni og hún leggur línurnar. Segir þér að það sé óþarfi að brosa alveg út að eyrum. „Það er alveg nóg að brosa svona,“ fullyrðir hún og sýnir þér hvernig maður brosir hálfa leið og lygnir aftur augunum um leið. Vinkona þín er með margar gullfyllingar sem hún fékk á kostnað ríkisins og mátti ekki borða í klukkutíma eftir tímana hjá tannlækninum. Hún fór alltaf beint í sjoppuna.
„Hvað ætli sundkennarinn segi þegar hann mætir í fyrramálið og finnur fýluna? Tí, hí, hí.“
Þið sitjið í kófinu, misvönkuð, púið, kjaftið og segið brandara. Sem þú situr þarna á sundlaugarbekk, með velgju og svima, sérðu bregða fyrir stöku reykhring, krökkum í sleik, og vinkonu þinni. Það glittir í hana, liggjandi afvelta á hörðum trébekk.
„Er í lagi með þig?“ spyrð þú.
„Lofið mér að deyja í friði,“ stynur hún.
Þegar þú kemur skjögrandi heim seint um kvöldið tekur þú andköf og kaldur sviti sprettur út á þér. Nasi, barnahesturinn þinn, liggur á hliðinni í brekkunni á bak við hús, baðaður í kvöldsólinni. Glansandi blautur með galopin augu, þungan andardrátt og froðu í nösum. Dýralæknirinn stumrar yfir honum. Pabbi þinn, mamma, bræður og afi líka. Lyktin af gufunni frá Nasa og hrossameðali eykur enn á vanlíðan þína.
Nasi, jarpur með hvíta stjörnu í enni og hvítan blett á nös. Nasi, sem hét í raun og veru Stjarni en var bara kallaður Nasi. Vinur sem bar þig út um mela og móa yfir mýrar og svell. Í öllum veðrum. Brokkarinn sá. Var felldur.
En vinkona þín er hvergi nærri af baki dottin og reykir enn. Í pleðurbuxum með fjólublátt passíuhár og kantaðar svartar augabrúnir sem eru eins og torkennilegir aukahlutir í andlitinu og minna einna helst á Spánarsnigla eða seli. Hún er rekur útibúið á staðnum og fer mikinn á fésbókinni. Þau hjónin komust yfir kvóta þegar togarinn var seldur og eiga glæsilega íbúð á höfuðborgarsvæðinu með gólfsíðum gluggum mót norðri og fara árlega til Tene og á skíði í ítölsku ölpunum.
Salthúsið á Höfðanum ofan við gamla frystihúsið, þar sem þið vöskuðuð fisk með ömmu heimsfrægrar indíkrútthljómsveitar sem var svo bogin af striti að hún smellpassaði við kerið, er orðið hótel með stórkostlegu útsýni yfir flóann. Umbúðageymslan og skreiðarvinnslan eru nú alþjóðleg listamiðstöð, bernskuheimili þitt hýsir heimagistingu og mörg hús eru frístundabústaðir brottfluttra þorpsbúa. Ferðamennirnir eru farnir. Flest úr síldartorfunni fluttu burt. Þú líka.
Höfundur: Rannveig Jónsdóttir