Margt smátt | Nýjustu tíðindi

Nýjustu tíðindi

Fjóla var frekar prívat manneskja. Hún naut þess að hlusta á aðra og halda sjálfri sér í bakgrunninum. Hún lagði mikið upp úr því að öðrum liði vel í kringum hana og lagði sig fram um að vera vingjarnleg og góður hlustandi. Sumum fannst hún of næs og létu fara í taugarnar á sér hvað hún tæki sjaldan afgerandi afstöðu eða sæi alltaf jákvæðari hliðar málanna og væri þakklát fyrir einfalda hluti. Hún fann oft að hún stuðaði sumt fólk með því einu að vera hún sjálf. Þegar það gerðist hélt hún sér enn meira til hlés. Hún gat ekki að því gert hvað hún átti auðvelt með að setja sig í spor annarra og hversu erfitt hún átti með að dæma fólk og gjörðir þeirra sísvona. Hún lét ekki oft í ljós hvað hún var að hugsa og deildi yfirleitt ekki persónulegum hlutum með öðrum nema hún fyndi fyrir fullu trausti. Henni fannst þó gaman að hlusta á sögur annarra og var vön að vera í kringum alls kyns fólk síðan í æsku enda ætt hennar stór og uppfull af litríkum persónum.

En nú fann hún fyrir þörf fyrir að deila nýjustu tíðindum af sjálfri sér með fólkinu í hennar nánasta hring. Enda voru þetta þó nokkuð stórar fréttir. Að verða ástfangin eru alltaf stórtíðindi í augum þess ástfangna.

Hún ákvað að gera sér ferð til Ölmu, góðrar vinkonu sinnar úr æsku. Byrja á öruggasta og auðveldasta staðnum. Þar sem hún gæti verið hún sjálf og þyrfti ekki að setja sig í stellingar. Gæti bara sagt hlutina óritskoðaða og án þess að ofhugsa þá. Þær höfðu þekkst lengi og voru nánar en ólíkar að upplagi og höfðu ólík áhugamál. Þær höfðu einnig valið sér ólíkan starfsvettvang og stað til að búa sér heimili. Alma bjó enn á æskustöðvunum en Fjóla hafði búið sér heimili í borginni fyrir nokkrum árum eftir nám sitt erlendis. Í raun voru flestir gömlu vinanna ólíkir Fjólu en hún hafði eignast vini frá ýmsum löndum undanfarin ár sem voru líkari henni, bæði hvað varðaði viðhorf og áhugasvið. Eftir að hún flutti heim hafði hún líka kynnst fólki í gegnum vinnu og áhugamál sem hún átti góða samleið með. Sumum af gömlu vinunum fannst áhugamálin sérviskuleg og sumir nýju vinanna óttalegir nördar en hún fann sig vel með þessum nýju vinum og á einhvern hátt betur en með gömlu vinunum. En Alma átti alltaf sérstakan stað í hjarta hennar af því að það var hún sem studdi Fjólu mest af öllum í gegnum skilnaðinn við æskuástina þrátt fyrir að Alma hafi þekkt hann jafn lengi og Fjóla og vitað hvað hann var góður maður og mikill fengur. Alma sýndi henni skilning og samkennd í gegnum þetta erfiða tímabil en það sama var ekki hægt að segja um aðra æskuvini. Stundum hafði henni fundist að hún ætti eingöngu Ölmu að.

Fjóla gerði sér upp erindi þannig að Ölmu grunaði ekki að tilefnið væri stórt. Hún sagðist vilja skutla til hennar stól og skrifborði sem hún var að losa sig við vegna flutninganna og Alma hafði þegið það fegins hendi, enda húsgögn sem kæmu sér vel á barnmörgu heimili.

Á leiðinni var Fjóla óróleg og velti alls kyns orðalagi fyrir sér. Hvernig hún ætti að koma orðum að fréttunum. Hvenær hún ætti að láta til skarar skríða. Um leið og þær hittust? Eða spila það eftir eyranu? Þrátt fyrir að falleg náttúran í gamla heimabænum hennar sefaði hugann á leiðinni fann hún fyrir verulegum hnút í maganum. Það var óvanalegt því að henni leið vel í kringum Ölmu og hafði aldrei áður fundið fyrir svona óþægindum þegar hún hitti hana. Auðvitað myndi Alma samgleðjast henni - það vissi Fjóla vel - en engu að síður var einhver beygur í henni. Líklega bar hún einhvern kvíðboga fyrir því að berskjalda sig svona því að það gerði hún svo sannarlega ekki á hverjum degi. Veggurinn var venjulega uppi og yfirleitt vel ritskoðað hvað fékk að sleppa út um hliðið og sérstaklega hvernig það var orðað. 

Þegar hún lagði bílnum fyrir framan hlýlegt húsið tók hún á sig rögg og hristi þessar tilfinningar af sér. Hún læsti bílnum og gekk í gegnum ræktarlegan garðinn. Það var róandi að sjá útskorin graskerin fyrir utan útidyrnar. Henni leið alltaf vel að sjá hvernig Alma hlúði að hverju smáatriði og leyfði börnum sínum að njóta sín til hins ýtrasta.

Eiginmaður Ölmu kom til dyra. Fjólu brá en lét á engu bera og sló á létta strengi. Hún hafði alls ekki búist við því að hann væri heima. Þær höfðu heyrst í síma stuttu áður en hún lagði af stað og Alma hafði ekki minnst einu orði á að hann yrði heima. Þetta sló hana út af laginu en hún ákvað að láta það ekki hafa áhrif á sín plön um að segja Ölmu fréttirnar. Hann mætti alveg heyra þær líka. Þetta voru gleðitíðindi og hún var í raun spennt að segja þeim frá.

Þær settust við eldhúsborðið og á meðan Alma sagði henni frá jarðarför sem hún var í hjá fjarskyldum, öldruðum ættingja deginum áður, útbjó maðurinn girnilegar samlokur fyrir þau. Fjóla hlustaði af athygli á nærgætna frásögn Ölmu á meðan ilmur af bræddum osti og steiktu brauði barst úr eldhúsinu. Fjóla fann að hún var svöng en hafði ekki tekið eftir því fyrr. Stressið var greinilega meira en hún hafði gert sér grein fyrir. Hún borðaði samlokuna með bestu lyst og fann að henni leið betur. Þegar hún var komin með rjúkandi kaffibolla úr nýju kaffivélinni þeirra fann hún að hún var að verða tilbúin að deila tíðindunum. Þó var eitthvað sem stoppaði hana af. Hún hafði heyrt manninn nefna að hann ætlaði út í skúr eftir matinn og hún ákvað að bíða eftir því.

Hún hlustaði á hjónin segja henni frá nýlegum hjónaskilnaði fyrrverandi bekkjarsystur þeirra sem Fjóla hafði misst tengsl við eftir að hún flutti út. Fréttirnar hafði Alma heyrt frá samkennara sínum í gamla grunnskólanum þeirra. Það var greinilegt að Alma tók þennan skilnað nærri sér en sá málið engu að síður auðveldlega út frá mörgum hliðum eins og hennar var von og vísa. Fjóla tók undir þær vangaveltur enda hafði Fjóla reynt það á eigin skinni að mál væru yfirleitt flóknari en svo að hægt væri að alhæfa eitthvað eitt fremur en annað – án þess að hún færi svosem að básúna það við Ölmu á þessari stundu, enda óþarfi að blanda eigin reynslu í umræðu um mál annarra.

Loks fór maðurinn út í skúr. Fjólu létti og ákvað að sæta lagi næst þegar færi gæfist. Hún vissi reyndar ekki alveg hvernig hún ætti að koma orðum að því sem hún vildi segja eða hvernig best væri að færa svona fréttir. Hvort hún ætti að slengja þessu fram eins og stórfrétt með upphrópunarmerkjum eða nefna þetta eins og í framhjáhlaupi, án allrar hleðslu, eins og þetta væri í raun algjört aukaatriði. Það væri best ef hún gæti farið seinni leiðina því að allra síst vildi hún gera sjálfa sig að einhverri aðalpersónu í þessari heimsókn. Það hafði verið álag á Ölmu undanfarið, bæði vegna vinnu og veikinda eins barnsins, og Fjóla vildi sýna henni stuðning í gegnum það og ekki eyða orku hennar að óþörfu. Hún hefði átt að vera búin að hugsa þetta betur áður en hún kom. Þessi heimsókn var vanhugsaðri en hún gerði sér grein fyrir í upphafi en hún fann það vel nú þegar á hólminn var komið. Erfitt reyndist að halda fullri athygli á Ölmu og var það úr takti við það sem hún átti að venjast en það gaf henni einnig til kynna að tilfinningarnar voru í hálfgerðri rússíbanareið innra með henni.

Á meðan Fjóla reyndi að hemja hugann sem hvarflaði fram og aftur hélt Alma áfram að segja henni nýjustu tíðindi úr bænum. Nýlega hafði komist upp um framhjáhald skólastjórans sem átti sér stað í einni kennslustofunni á kvöldin. Hann hafði einnig notað fartölvu í eigu skólans við myndatökur af ósæmilegu athæfi sínu. Þetta voru stórar fréttir og Alma var hissa á að maðurinn héldi vinnu sinni eins og ekkert hefði í skorist. Fjóla samsinnti en hugsaði með sér að e.t.v. hefði sagan breyst á leiðinni eða ekki allar hliðar málsins kunnar á þessari stundu. Að minnsta kosti fannst henni erfitt að ná að setja sig almennilega inn í málið með þessar takmörkuðu upplýsingar til að taka skýra afstöðu.

Skyndilega kom maður Ölmu aftur inn í húsið. Fjóla fann fyrir vonbrigðum en lét á engu bera, leit á klukkuna og sá að hún þurfti að fara að drífa sig heim að ná í kerruna áður en hún sækti yngra barnið. Þær gengu fram í forstofu á meðan Alma flýtti sér að segja henni allt sem tengdist máli skólastjórans því að auðvitað kom margt í ljós úr bakgrunni hans við þessa uppljóstrun. Fjólu fannst hún ekki hafa tíma til að meðtaka allar þær upplýsingar og fann að hugurinn var á fleygiferð – og tilfinningarnar með – en hún reyndi eftir bestu getu að vera í núinu með Ölmu. Þær ákváðu að hittast fljótt aftur og kvöddust.

Á leiðinni út í bíl var Fjóla hugsi. Hún fann að hún þyrfti að hitta Ölmu fljótt aftur en vissi ekki hvort þá gæfist frekar tækifæri til þess að segja henni fréttirnar. Hún vonaði það. Það var ekki laust við að hún fyndi fyrir nokkurri hryggð yfir því að hafa ekki náð að segja Ölmu allt af létta, sér í lagi af því að Alma myndi að öllum líkindum samgleðjast henni innilega og styðja hana ef á þyrfti að halda. Það örlaði jafnframt á vonbrigðum hjá Fjólu, ekki síst með sjálfa sig. Auðvitað vildi hún deila þessum stóra og mikilvæga hluta af lífi sínu með vinkonu sem stóð henni svona nærri. Hún skildi ekki almennilega hvað hafði stoppað hana. Líklega hafði hún ekki viljað trufla flæðið í samtalinu þó að henni lægi mikið á hjarta. Ef til vill var hún of vön því að leyfa öðrum að njóta sín til hins ýtrasta í samtölum. Það var henni framandi að kveða sér hljóðs þrátt fyrir að mikið lægi við. Einhvern veginn vildi hún helst ekki láta hafa fyrir sér á neinn hátt. Vildi ekki verða að einhverju aðalatriði. Hún fann fyrir trega og tilhlökkun í bland þegar hún keyrði heim til nýju kærustunnar.


Höfundur: Ragnhildur Guðmundsdóttir

Næsta saga: Pepsí